Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Miðlun farþegaupplýsinga til bandarískra stjórnvalda

8. júní 2007

Miðlun farþegaupplýsinga til bandarískra stjórnvalda

Hinn 3. maí veitti Persónuvernd Icelandair ehf. leyfi til að miðla ýmsum persónuupplýsingum farþega sin

na til heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna.

Heimildin er veitt tímabundið og gildir til 31. júlí 2007. Hún er veitt á grundvelli sjónarmiða um brýna almannahagsmuni, þar sem fyrir liggur að Icelandair hefur á hættu að verða neitað um lendingarleyfi í Bandaríkjunum, fái þarlend stjórnvöld ekki aðgang að upplýsingunum. Það land telst annars ekki veita persónuupplýsingum þá vernd sem EES ríki tryggja samkvæmt tilskipun nr. 96/45/EB sem hin íslensku lög nr 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga byggja á. Framsal persónuupplýsinga til Bandaríkjanna er þess vegna óleyfilegt nema sérstök skilyrði séu uppfyllt.

Persónuvernd veitir heimildina með vísan til 2.mgr. 30.gr. og 3.mgr. 9.gr. laganna um persónuvernd, en þessi ákvæði veita stofnuninni heimild til að víkja frá almennum ákvæðum laganna ef sérstök rök eða brýnir almannahagsmunir mæla með því.

Um er að ræða upplýsingar úr farþegakerfum (e. Passenger Name Record – „PNR-upplýsingar.") Sem dæmi má nefna nöfn, símanúmer, netföng og heimilisföng auk ýmissa upplýsinga tengdum ferðalaginu sjálfu og bókun þess, þar á meðal greiðsluupplýsingar en undir þær falla t.a.m. kreditkortanúmer. Aðgang að upplýsingunum hafa tiltekin stjórnvöld sem heyra undir bandaríska heimavarnarráðuneytið.

Persónuvernd leggur áherslu á að leyfið er bundið skilyrðum um að uppfræða farþega um þetta, áður en kaup á miða fara fram, og mun hafa eftirlit með að reglum sé framfylgt.

Um forsögu leyfisveitingarinnar: Í stuttu máli þurfti að veita leyfið þar sem lagastoð fyrir miðlun upplýsinganna til BNA hafði verið kippt undan með dómi Evrópudómstólsins frá 30. maí 2006. Dómstóllinn ógilti ákvörðun framkvæmdastjórnar EB um að miðlun PNR upplýsinga og eftirfarandi vinnsla, fullnægði kröfum áðurnefndrar tilskipunar sem íslensku lögin um persónuvernd byggja á vegna EES-samningsins. Stjórnvöld Evrópusambandsins og Bandaríkjanna vinna nú að gerð nýs samnings um flutning persónuupplýsinga en núverandi bráðabirgðasamningur rennur út 31. júlí 2007, sama dag og heimild Icelandair.

Persónuvernd vill geta þess að gott samstarf hefur verið um málið við dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Icelandair. Icelandair hefur nú þegar brugðist við og kynnti fyrir Persónuvernd í gær hvernig fræðslu verður komið á framfæri við farþega.

Leyfi Persónuverndar.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820