Ný starfsleyfi fyrir Lánstraust hf.
31. maí 2007
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 3. maí sl. var fjallað um beiðni Lánstrausts hf. um ákveðnar breytingar á starfsleyfum sínum.
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 3. maí sl. var fjallað um beiðni Lánstrausts hf. um ákveðnar breytingar á starfsleyfum sínum.
Annars vegar var um að ræða ósk um að fá að safna, skrá og miðla upplýsingum um birtingu greiðsluáskorunar skv. 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og var sú ósk Lánstrausts hf. samþykkt.
Hins vegar var um að ræða ósk Lánstrausts hf. um að fyrirtækinu yrði heimilt að safna, skrá og miðla upplýsingum um þau tilvik þar sem ekki er hægt að ljúka fjárnámsgerð að gerðarþola fjarstöddum. Þeirri ósk Lánstrausts hf. var hafnað m.a. á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hefðu afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.
Ný starfsleyfi fyrir Lánstraust hf. til þess að safna og skrá upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, annars vegar, og lögaðila, hins vegar, tóku gildi þann 3. maí sl.
Starfsleyfi til þess að safna og skrá upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.
Starfsleyfi til þess að safna og skrá upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila.