Persónuverndardagurinn
28. janúar 2007
Tækninni fleygir óðum fram og bætir lífsgæði mannanna á ótalmörgum sviðum. En ef ekki er sýnd aðgát getur tæknin einnig haft óæskilegar verkanir. Tölvutæknina, sem orðin er ómissandi hluti nútímalífs, má til að mynda misnota til að skerða réttindi fólks og má þar einkum og sér í lagi nefna réttinn til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt og verndar persónuupplýsinga um sig.
Myndavélavöktun og annað rafrænt eftirlit getur þannig, sé hófs ekki gætt, orðið til að þrengja mjög að persónufrelsi manna algjörlega að nauðsynjalausu. Slíkt kann að birtast í vöktun vinnuveitenda með starfsfólki sínu, en því miður eru vísbendingar um að slík vöktun fari í ákveðnum tilvikum langt úr hófi fram. Hefur sú hætta þá orðið að veruleika að í stað þess að borið sé eðlilegt traust til starfsfólks er því sýnd tortryggni – með öðrum orðum: Gengið er að því sem gefnu að það sinni ekki störfum sínum af heiðarleika og dugnaði nema það sé haft undir stöðugu, rafrænu eftirliti.
Þessi tilhneiging til vöktunar og eftirlits ógnar því ekki aðeins friðhelgi einkalífsins heldur einnig ákveðnum þætti í grunngerð samfélags okkar. Þessi samfélagsþáttur birtist í því að við göngum ekki að því sem gefnu að náunginn sé latur og óheiðarlegur heldur berum virðingu hvert fyrir öðru og komum fram við annað fólk sem frjálsa, hugsandi einstaklinga. Verði það að almennri reglu að fólk sé tortryggt og því stöðugt vaktað til að girða fyrir óæskilega hegðun er þetta traust mannfólksins hvert fyrir öðru fokið út um gluggann. Samfélag okkar verður þá ekki lengur frjálst samfélag heldur vöktunarsamfélag svipað því sem tíðkast hefur í alræðisríkjum þar sem einstaklingurinn hefur sem slíkur ekkert gildi heldur aðeins hin stóra heild.
Af þessu má glögglega ráða hversu mikilvægt er fyrir lýðræðið að friðhelgi einkalífs sé virt og að persónuupplýsingar fólks njóti verndar. Að öðrum kosti er einstaklingurinn samofinn þjóðfélaginu í slíkum mæli að frjáls og einstaklingsbundin þátttaka hans í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku verður í raun útilokuð. Fyrir vikið verður frelsi einstaklingsins þá aðeins tálsýn en ekki veruleiki.
Einn þátturinn í að girða fyrir slíkt er að persónuupplýsingar njóti verndar laganna og er sú enda raunin í flestum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hefur það nú ákveðið að gera daginn í dag að sérstökum persónuverndardegi til áminningar um mikilvægi þessa. Af því tilefni er grein þessi skrifuð og vil ég hvetja fólk til hugleiðinga og umræðna um það mikilvæga málefni sem vernd persónuupplýsinga vissulega er.
- Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd