Árlegur vorfundur forstjóra evrópskra persónuverndarstofnana
29. apríl 2005
Dagana 25.–26. apríl var haldinn árlegur vorfundur forstjóra evrópskra persónuverndarstofnana í Krakow.
Dagana 25.–26. apríl var haldinn árlegur vorfundur forstjóra evrópskra persónuverndarstofnana í Krakow. Slíkir fundir eru vettvangur samráðs um samræmda túlkun og framkvæmd á Evrópulöggjöf um meðferð persónuupplýsinga, einkum tilskipun nr. 95/46/EB. Eru þar jafnframt teknar stefnumarkandi ákvarðanir um frekara samstarf ríkjanna og réttarþróun á þessu sviði.
Eitt megin umræðuefni þessa fundar var eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga í dóms- og löggæslumálum, innflytjendaeftirliti og landamæravörslu, í ljósi aukinnar samvinnu ríkja ESB í þessum málum innan þriðju stoðar sambandsins. Samþykkti fundurinn yfirlýsingu þess efnis að fagna bæri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB um að setja sérstakar reglur um vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði, enda tækju þær mið af þeim meginreglum sem almennt gilda um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt fyrrnefndri tilskipun. Enn fremur gaf fundurinn álit sitt á tillögu Svíþjóðar að rammaákvörðun af hálfu ráðherraráðsins um einföldun á regluverki um skipti á upplýsingum milli lögregluyfirvalda í aðildarríkjum ESB (frá 4. júní 2004 nr. 10215/04). Taldi fundurinn í áliti sínu að skilgreina þyrfti betur umfang slíkrar ákvörðunar og gera hana skýrari varðandi þær reglur sem leitast væri við að einfalda með henni.