Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Athygli dómsmálaráðherra vakin á þörf á breytingum á rgl. 322/2001

24. maí 2005

Bréf Persónuverndar til dómsmálaráðherra þar sem vakin er athygli á að þörf kunni að vera á breytingum á reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Merki - Persónuvernd

24. maí 2005

Persónuvernd fékk nýlega til úrlausnar mál sem varðaði öflun vinnuveitanda á upplýsingum úr málaskrá lögreglu í tengslum við starfsumsókn. Upplýsinganna var aflað á grundvelli 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. rgl. nr. 322/2001. Að mati Persónuverndar er hætta á að vinnuveitendur fari nú í auknum mæli að biðja um slíkar upplýsingar úr málaskrá lögreglu í stað þess að óska eftir sakavottorði umsækjenda um starf. Þar sem þessi þróun getur verið skaðleg friðhelgi einkalífs og torveldað störf lögreglu ákvað stjórn Persónuverndar að vekja athygli yðar, hæstvirti ráðherra, á þessu vandamáli með vísan til 4. og 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Við ráðningu í starf getur verið málefnalegt að líta til þess hvort umsækjandi hafi gerst brotlegur við lög. Slíkt ræðst af eðli þess starfa sem um ræðir og verður að meta hverju sinni, auk þess sem rétt getur verið að takmarka upplýsingaöflunina við tiltekna brotaflokka. Þannig eiga yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma, rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn maður, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, að fengnu samþykki hans, sbr. 3. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001. Önnur störf þar sem málefnalegt getur verið að óska upplýsinga um brotaferil eru t.d. lögreglustörf, öryggisvarsla og störf þar sem farið er með fjárreiður.

Að öllu jöfnu er brotaferill umsækjanda kannaður með þeim hætti að hann er beðinn um að leggja fram sakavottorð sem gefið er út samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 569/1999 um sakaskrá ríkisins. Í slíkum vottorðum er ekki að finna allar þær upplýsingar sem skráðar eru í sakaskrá, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Sumir vinnuveitendur hafa því tekið upp á því að leita eftir samþykki umsækjenda um starf til þess að mega fá allar upplýsingar um þá úr málaskrám lögreglu.

Stjórnarformaður og starfsmaður Persónuverndar áttu fund með starfsmönnum ríkislögreglustjórans þann 28. apríl sl. og kynntu sér uppbyggingu miðlægs tölvukerfis lögreglunnar þar sem m.a. er að finna málaskrá. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóranum er heildarfjöldi skráðra einstaklinga í miðlægum gagnagrunni lögreglunnar 253.854, og er þá miðað við alla þá sem einhvern tímann hafa verið skráðir í gagnagrunn lögreglu frá árinu 1988. Af tæknilegum ástæðum kann að vera að útlendingar séu tvískráðir í kerfinu, en skráðir Íslendingar eru 201.278 talsins, sé miðað við dagsetninguna 13. maí 2005. Það er því ljóst að í skrám lögreglunnar er að finna persónuupplýsingar um mjög breiðan hóp manna. Ennfremur er ljóst að í skrám lögreglu er að finna mun víðtækari persónuupplýsingar en í sakaskrá ríkisins. Þar er að finna upplýsingar um staðfest brot af hálfu einstaklinga sem ekki fara í sakaskrá, t.d. ýmsar sáttagerðir. Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á því að í málaskrám lögreglu er einnig að finna upplýsingar um mál þar sem ekki hefur verið tilefni til að gefa út ákæru í og upplýsingar um óstaðfestar grunsemdir um refsivert athæfi. Það er notkun þessara síðastnefndu upplýsinga sem Persónuvernd telur geta verið mjög skaðlegar friðhelgi einkalífs. Lögreglu er nauðsynlegt í störfum sínum að geta skráð niður upplýsingar um grunsemdir um lögbrot og vangaveltur um tengsl og samstarf grunaðra manna. Slíkar upplýsingar eiga á hinn bóginn ekkert erindi við óviðkomandi aðila, sem að auki geta ekki staðreynt sannleiksgildi þeirra. Not slíkra upplýsinga um grunsemdir og eftir atvikum hugleiðingar lögreglumanna sem annast rannsókn opinberra mála geta brotið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, en skv. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus uns sekt er sönnuð og er súgrundvallarregla í samræmi við 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994, og 2. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnamálaleg réttindi.

Aukin notkun upplýsinga um óstaðfestar grunsemdir úr málaskrá lögreglu við ráðningu í hvers konar störf skapar óhjákvæmilega mikla hættu á að umsækjendum sé gert rangt til auk þess sem miðlun á þessum upplýsingum getur bitnað á störfum lögreglunnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat Persónuverndar að ástæða sé til að taka til athugunar hvort rétt sé að breyta reglum og banna notkun persónuupplýsinga úr skrám lögreglu í því skyni að meta atvinnuumsækjendur nema í skýrt afmörkuðum tilvikum, t.d. þegar um er að ræða starf í þágu þjóðaröryggis, landvarna o.þ.h., enda sé þá staðreynt hvort um áreiðanlegar upplýsingar er að ræða með frekari rannsókn.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820