Ákvörðun spænsku persónuverndarstofnunarinnar varðandi nýja stefnu Google um friðhelgi einkalífs
2. janúar 2014
Í niðurstöðum úttektar sem spænska persónuverndarstofnunin, Agencia Española de Protección de Datos (AEPD), stóð fyrir á vinnslu persónuupplýsinga hjá Google kemur fram að fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum spænskrar persónuupplýsingalöggjafar. Úttektin var hluti af rannsókn að frumkvæði vinnuhóps evrópskra persónuverndarstofnana sem framkvæmd var á árinu 2012 í samstarfi við spænsku persónuverndarstofnunina. Í fréttatilkynningu frá henni kemur fram að Google hafi unnið með persónuupplýsingar á ólögmætan hátt á grundvelli nýrrar stefnu um friðhelgi einkalífs. AEPD staðfesti að Google veitti notendum ekki nægilega fræðslu um það hvaða persónuupplýsingum væri safnað, í hvaða tilgangi þær væru unnar, sameinaði upplýsingar sem safnað er frá ólíkum þjónustuaðilum, varðveitti þær í ótilgreindan tíma og gerði notendum erfitt um vik að neyta réttar síns. Þá kemur fram að sameining persónuupplýsinga frá ólíkum aðilum sé umfram eðlileg mörk sem notendur mega gera ráð fyrir ásamt því að þeim sé ekki kunnugt um hana. AEPD lýsti því yfir að um þrenns konar brot á spænsku persónuupplýsingalöggjöfinni væri að ræða og sektaði Google um 300.000 evrur fyrir hvert brot.
Sjá nánar fréttatilkynningu frá persónuverndarstofnuninni á Spáni.
Nánari samantekt um viðurlagaákvörðun AEPD.
Ákvörðun AEPD í heild sinni (einungis á spænsku).