Bókun fundar með fyrirsvarsmönnum Hagstofunnar
31. maí 2006
Rætt var um mögulega heimilisfangaleynd í þjóðskrá. Tilefni þess var að Persónuvernd höfðu borist ábendingar um, að þörf gæti skapast fyrir einstaklinga, s.s. þá sem ofsóknum sæta, á að geta skipt um lögheimili án þess að miðlað væri upplýsingum um hið nýja heimilisfang. Hafði Persónuverd ritað Hagstofu Íslands bréf af þessu tilefni hinn 21. janúar 2004.
Þær lagaheimildir sem álitaefnið varða eru 19. gr. laga nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu, en þar segir að þjóðskráin veiti hverjum sem er upplýsingar um aðsetur manna og önnur atriði samkvæmt skrám sínum og gögnum, eftir reglum sem Hagstofan setur. Í 3. gr. reglna nr. 112/1958 um útgáfu vottorða og veitingu upplýsinga úr þjóðskrá, sem sett hefur verið á grundvelli þessarar lagaheimildar, er kveðið á um að Þjóðskráin geti orðið við tilmælum manns um að tilteknum einkaaðila sé ekki veitt viteskja um aðsetur hans hafi hann, að dómi Þjóðskrárinnar, réttmæta og eðlilega ástæðu til að aðsetri hans sé haldið leyndu gagnvart þeim. Þetta ákvæði er haldið þeim galla að sú vernd, sem það veitir, er takmörkuð að því leyti að hinn skráði verður að nefna tiltekna aðila sem ekki mega fá aðgang að upplýsingum um aðsetur hans. Eins og aðgengi er nú háttað að þjóðskráinni er ekki raunhæft að hægt sé að framfylgja því.
Í 2. mgr. 26. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga segir að ef ákvæði annarra laga standi því ekki í vegi geti skráður aðili krafist þess að notkun upplýsinga sé bönnuð ef slíkt teljist réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati. Við slíkt hagsmunamat skuli taka tillit til hagsmuna annarra, almennra persónuverndarhagsmuna, almannahagsmuna og þeirra aðgerða sem þörf sé á til að verða við kröfunni. Í 1. mgr. 28. gr. laganna segir ennfremur að hinum skráða sé heimilt að andmæla vinnslu upplýsinga um sjálfan sig hafi hann til þess lögmætar og knýjandi ástæður vegna sérstakra aðstæðna sinna, nema kveðið sé á um annað í öðrum lögum. Eigi andmælin rétt á sér sé ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga.
Á fundinum lýstu fyrirsvarsmenn Hagstofu Íslands því yfir að mögulegt væri að dylja fullt heimilisfang manns í þjóðskrá með sérstökum hætti ef hún teldi, að undangenginni rannsókn hennar og að hún mæti mál þannig að til þess stæðu mjög veigamikilir og lögvarðir hagsmunir. Slík skráning í þjóðskrá gæti þó aðeins verið tímabundin.
Í ljósi þess að ákvæði 2.mgr. 26. gr. og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 virtust uppfyllt skv. þeirri málsmeðferð sem hér að framan er lýst taldi Persónuvernd ekki ástæðu til frekari athugunar á málinu. Mun hún þar með loka umræddu máli, enda hafi henni engar athugasemdir borist fyrir 15. nóvember nk.