Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

16. alþjóðlegi persónuverndardagurinn - 28. janúar

28. janúar 2022

Persónuverndardagurinn er haldinn hátíðlegur nú í 16. skipti. 

Merki - Persónuvernd

Árið 2006 ákvað Evrópuráðið að halda dag persónuverndar hátíðlegan. Var hann haldinn í fyrsta skipti hinn 28. janúar 2007 og er því deginum fagnað nú í 16. skipti víða um heim. Dagurinn hefur sterka skírskotun til Evrópuráðssamnings nr. 108 frá 1981, sem er hornsteinn löggjafar um persónuvernd innan og utan Evrópu. Með honum ítrekuðu Evrópuþjóðir, og síðar þjóðir utan Evrópu, skuldbindingu sína um ráðstafanir til þess að tryggja vernd réttinda og mannfrelsis, einkum einkalífsréttar, gagnvart vélrænni vinnslu persónuupplýsinga. Ísland hefur verið aðili að samningnum frá upphafi. Núgildandi lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 eiga um margt rætur sínar að rekja til samningsins frá 1981.

Hér má sjá kynningarmyndband um samninginn.

Sandkassinn – gervigreind í heilbrigðisþjónustu

Í tilefni af deginum ákvað Persónuvernd, í samstarfi við Embætti landlæknis og Stafrænt Ísland að kynna fyrirhugaðan sandkassa fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að þróa lausnir byggðar á gervigreind til að nota í heilbrigðisþjónustu. Verkefninu er ætlað að aðstoða fyrirtæki við að hanna lausnir með persónuverndarsjónarmið að leiðarljósi og munu Persónuvernd og samstarfsaðilar hennar vera í þéttu samtali við þá aðila sem verða valdir til þátttöku í kjölfar umsóknarferlis.Nánari upplýsingar um sandkassann.

Nýtt rafrænt kvörtunareyðublað á Ísland.is

Á næstu dögum stefnir Persónuvernd á að taka í notkun nýtt rafrænt kvörtunareyðublað, þar sem þeir sem telja á sér brotið við vinnslu persónuupplýsinga munu geta sent stofnuninni kvörtun rafrænt í gegnum Ísland.is. Með því að taka eyðublaðið í notkun vonast Persónuvernd til að auðvelda fólki að setja kvörtun sína til stofnunarinnar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Í eyðublaðinu er jafnframt að finna leiðbeiningar um helstu málaflokka sem Persónuvernd getur ekki fjallað um. Standa vonir til þess að með tilkomu eyðublaðsins fækki þannig innkomnum kvörtunum til Persónuverndar. Er það til þess fallið að draga að einhverju marki úr því álagi sem einkennt hefur starfsemi hennar síðastliðin ár og stytta málsmeðferðartíma þeirra kvartana sem teknar eru til efnislegrar meðferðar.

Eyðublaðið er fyrsta skref Persónuverndar í átt að aukinni rafrænni þjónustu stofnunarinnar. Búast má við að á næstu misserum verði fleiri rafræn eyðublöð tekin í notkun.

Fjölmiðlaumfjöllun Persónuverndar í tilefni af alþjóðlegum persónuverndardegi

Í tilefni dagsins verður hægt að nálgast viðtöl við Helgu Þórisdóttur, forstjóra og Vigdísi Evu Líndal, sviðsstjóra erlends samstarfs og fræðslu hjá Persónuvernd, á eftirfarandi stöðum:

Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) – 31 eftirlitsaðili – til staðar fyrir þig!

Forstjórar evrópskra persónuverndarstofnana starfa saman í Evrópska persónuverndarráðinu – ásamt sínum helstu sérfræðingum, og í tilefni dagsins birtir EDPB samsetta mynd af þeim öllum, sem sjá mér hér. Yfirskriftin er 31 eftirlitsaðili – vinna saman fyrir þig!

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820