Tveir markverðir dómar hjá Evrópudómstólnum
2. október 2012
Dómur um netsíurEvrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa belgísku höfundarréttarsamtakanna (SABAM) um uppsetningu á síu á belgíska samskiptavefinn Netlog gangi gegn ákvæðum Evrópusambandsins. Belgísku höfundarréttarsamtökin gerðu þá kröfu að samskiptavefurinn setti upp síu (e. filter) sem kæmi í veg fyrir að notendur samskiptavefsins skiptust á efni sem hugsanlega bryti gegn höfundarrétti rétthafa. Evrópudómstóllinn taldi að hér væri ekki gætt meðalhófs þar sem að uppsetning slíkrar síu væri of víðtæk þar sem hún tæki til alls efnis notenda samskiptavefsins. Ef engin afmörkun ætti sér stað fæli slík sía í sér umtalsverða vinnslu persónuupplýsinga, þar sem skima þyrfti öll persónusnið (e. user profiles) til að athuga hvort efni þeirra bryti gegn höfundarrétti. Evrópudómstóllinn taldi að finna þyrfti aðra vægari og betri afmarkaða lausn sem stuðli að jafnvægi á milli höfundarréttar rétthafa og friðhelgi einkalífs notenda samskiptavefsins.
Dóm Evrópudómstólsins nr. C-360/10 má nálgast hér.
Dómur um landbúnaðarstyrkiEvrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu árið 2010 að lagaákvæði um birtingu upplýsinga um einstaklinga sem þáðu landbúnaðarstyrki Evrópusambandsins á heimasíðu þýskrar landbúnaðarstofnunar (e. General Federal Office of Agriculture and Food) væru ógild. Í dómnum reyndi annars vegar á birtingu nafna lögaðila og hins vegar einstaklinga, ásamt heimilsföngum þeirra og þeirri fjárhæð sem þeim var úthlutað. Dómstóllinn taldi að slík birting þyrfti að eiga sér lagastoð, virða grunnréttindi einstaklinga, uppfylla sjónarmið um meðalhóf, vera nauðsynleg og vernda almannahagsmuni. Hvað varðaði lögaðila taldi dómstóllinn að fullnægjandi lagastoð hefði verið fyrir hendi og lögmætum markmiðum um aukið gagnsæi stjórnsýslunnar og upplýsingamiðlun til borgara hafi verið náð. Hafi birting upplýsinga um slíka aðila því verið heimil. Hvað varðaði birtingu upplýsinga um einstaklinga taldi dómstóllinn hins vegar að við lagasetninguna hafi meðalhófssjónarmiða ekki verið gætt með því að gera ekki greinarmun á birtingu upplýsinga lögaðila og einstaklinga. Hefði löggjafinn átt að taka tillit til ýmissa þátta við mat á því hvaða upplýsingar skyldi birta til þess að uppfyllt væru skilyrði um meðalhóf, svo sem á hvaða tímabili styrkirnir voru veittir, hversu oft þeir voru veittir og eðli og upphæð styrkjanna. Sú víðtæka lagaskylda sem mælt væri fyrir um í Evróputilskipunum nr. 1290/2005 og nr. 259/2008, um birtingu upplýsinga um styrkþega á heimasíðum, hafi ekki uppfyllt skilyrði um meðalhóf og lögmæta vinnslu persónuupplýsinga og taldi dómstóllinn því lagaákvæðin ógild.
Dóm Evrópudómstólsins nr. C-92/09 má nálgast hér.