Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Norska persónuverndarstofnunin sektar Google

13. ágúst 2012

Merki - Persónuvernd

Norska persónuverndarstofnunin hefur ákveðið að sekta Google um 250.000 NOK vegna brots á persónuverndarlögum. Þá hefur verið lagt fyrir fyrirtækið að eyða persónuupplýsingum og tæknilegum upplýsingum sem safnað var án vitundar hinna skráðu í gegnum WiFi-kerfi notenda. Aflaði Google upplýsinganna með s.k. Google-bílum en þeir hafa það hlutverk að mynda umhverfi sitt og þannig búa til t.d. Google Street View.

Í fréttatilkynningu frá norsku persónuverndarstofnuninni, Datatilsynet, kemur fram að stofnunin telji þetta vera alvarlegt brot á þarlendum persónuverndarlögum. Upphaf málsins má rekja til þess að árið 2010 var Datatilsynet upplýst um að bílar Google hefðu safnað umræddum upplýsingum í tengslum við gerð Google Street View í Noregi. Upplýsingarnar sem um ræðir geta m.a. innihaldið nöfn, lykilorð og brot úr tölvupóstum.

Datatilsynet krafðist þess þá að umræddum upplýsingum yrði eytt af hálfu Google og fékk staðfestingu frá fyrirtækinu þess efnis. Í júlí sl. komst stofnunin hins vegar að því að gögnunum hefði ekki verið eytt. Í niðurstöðu Datatilsynet kemur fram að Google skorti lagalegan grundvöll fyrir því að hafa þessar upplýsingar undir höndum, enda sé ekki aflað samþykkis frá einstaklingum, upplýsingarnar eru geymdar lengur en nauðsynlegt er og þeim var ekki eytt eins og Datatilsynet hafði kveðið á um.

Frétt Datatilsynet.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820