Niðurfelling máls varðandi Umferðarstofu
20. desember 2011
Efni:
Samkeyrsla upplýsinga hjá Umferðarstofu
Persónuvernd vísar til ábendinga sem henni bárust af tilefni blaðagreinar A í fréttablaðinu Reykjavík, dags. 5. nóvember 2011, sem bar yfirskriftina „Íbúar sem heimta hraðahindranir oft mestu glannarnir“. Í greininni sagði eftirfarandi á forsíðu blaðsins:
„A segir að þegar listar yfir óskir íbúanna í þessa veru, eru bornir saman við lista lögreglunnar yfir sektir vegna hraðaksturs, komi í ljós að sömu nöfnin séu oft á báðum listum.“
Þá sagði nánar í grein A á blaðsíðu 2:
„Algengt er að íbúar óski eftir því að gripið sé til hraðahindrandi aðgerða í nágrenni við heimili sín, en það er sorgleg staðreynd að oft er hægt að samkeyra óskalistana saman við lista yfir sektarboð lögreglu vegna hraðaksturs.“
Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, lagði Persónuvernd fyrir Umferðarstofu að skýra lögmæti framangreindrar vinnslu persónuupplýsinga, m.a. með vísan til 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Var frestur veittur til 22. nóvember s.á.
Svarbréf Umferðarstofu, dags. 21. nóvember 2011, barst stofnuninni þann 22. s.m. Þar segir m.a.:
„Yfirstjórn Umferðarstofu óskaði eftri skýringum A þar sem vitað er að samkeyrsla af því tagi sem fram kom í viðtalinu hefur aldrei átt sér stað. Skýringar A eru eftirfarandi:
„Greinin var mjög ónákvæmlega orðuð og alls ekki í samræmi við þann raunveruleika sem tíðkast. Það er reyndar vitað að ef slíkir listar væru bornir saman við sektarlista væri niðurstaðan því miður alltof oft sú sama. Það er mat manna sem þekkja vel til. Hins vegar hefur slíkt tölvusamkeyrsla aldrei átt sér stað og mun vonandi aldrei gera. Ég geri mér mjög vel grein fyrir gildi persónuverndar og trúnaðar, og hef ávallt leitast við að gæta þess í störfum mínum. Ég veit að ég starfa á mjög viðkvæmu sviði og tel að þarna hafi ég alls ekki sýnt næga varúð og ekki gætt orða minna. Hins vegar hefði hugsunin sem að baki bjó getað náð fram án skírskotunar til samkeyrslu gagna, sem ekki hefur átt sér stað. ég biðst velvirðingar á því og mun leggja áherslu á að slíkt endurtaki sig ekki.“
Það er von Umferðarstofu að útskýringar A verði til þess að Persónuvernd ljúki málinu án frekari aðgerða.“
Með vísan til þess sem fram hefur komið af hálfu Umferðarstofu telur Persónuvernd ekki þörf á frekari aðgerða vegna máls þessa. Hefur málið því verið fellt niður.