Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Tilskipun um varðveislu upplýsinga - Álit European Data Protection supervisor

21. júlí 2011

Þann 18. apríl 2011 birti framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins skýrslu um þá þróun sem hefur orðið á framkvæmd tilskipunar nr. 2006/24/EC um varðveislu persónuupplýsinga sem verða til við rafræn fjarskipti. Í kjölfarið gaf Evrópski persónuverndarfulltrúinn út álit um tilskipunina og skýrslu framkvæmdarstjórnarinnar.

Merki - Persónuvernd

Tilskipun um varðveislu upplýsinga - Álit European Data Protection supervisor Þann 18. apríl 2011 birti framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins skýrslu um þá þróun sem hefur orðið á framkvæmd tilskipunar nr. 2006/24/EC um varðveislu persónuupplýsinga sem verða til við rafræn fjarskipti (e. Data retention directive). Í kjölfarið gaf Evrópski persónuverndarfulltrúinn út álit um tilskipunina og skýrslu framkvæmdarstjórnarinnar.

Samkvæmt ákvæðum 5. og 6. gr. tilskipunar nr. 2006/24/EC skulu aðildarríki Evrópusambandsins innleiða löggjöf þar sem mælt er fyrir um varðveislu allra gagna er verða til við símnotkun og netnotkun einstaklinga innan aðildarríkis og að þau skuli varðveitt í að minnsta sex mánuði og allt að tveimur árum. Í tilskipuninni kemur fram að sá aðili sem heldur uppi fjarskiptaþjónustu eða netþjónustu skuli varðveita gögnin. Markmið varðveislunnar er að tryggja að gögn séu til í þeim tilgangi að rannsaka, greina og saksækja fyrir alvarlega glæpi, sbr. 1. mgr. tilskipunarinnar.

Evrópski persónuverndarfulltrúinn gerir sérstaklega þrjár athugasemdir við tilskipunina:

Í fyrsta lagi telur hann að ekki hafi verið nægilega sýnt fram á nauðsyn þess að varðveita persónuupplýsingar samkvæmt tilskipuninni. Því til stuðnings nefnir hann að ekki hafi verið aflað nægilegra og greinagóðra gagna frá aðildarríkjunum við gerð skýrslunnar. Þá telur hann að skoða hefði mátt betur hvort önnur vægari úrræði geti náð sama tilgangi. Í því sambandi nefnir hann að í stað þess að varðveita fjarskiptaupplýsingar allra manna innan Evrópusambandsins, væri hægt að varðveita fjarskiptaupplýsingar um menn sem grunaðir eru um afbrot og aðeins að fengnum dómsúrskurði.

Í öðru lagi telur hann að farið sé út fyrir það sem nauðsynlegt er. Í því sambandi bendir hann á að notkun fjarskiptaupplýsinga hefur verið of víðtæk og að of mörg stjórnvöld geti nýtt sér þær. Það telur hann leiða af óskýru og opnu orðalagi tilskipunarinnar. Einnig nefnir Evrópski persónuverndarfulltrúinn að tveggja ára varðveislutími sé of langur en það hafi sýnt sig að gögn eru oftast sótt sex mánuðum eftir að þau verða til.

Í þriðja lagi telur hann að tilskipunina skorti fyrirsjáanleika. Samkvæmt skýrslunni er aðildarríkjum sambandsins eftirlátið að skilgreina nánar hvað teljist vera alvarleg afbrot og hvaða yfirvöld séu hæf til að fá aðgang að þeim persónuupplýsingum sem varðveitt eru samkvæmt tilskipuninni. Af þeim ástæðum telur persónuverndarfulltrúinn að misræmi hafi myndast í skýringu ákvæðanna og við innleiðingu tilskipunarinnar. Það leiðir til þess að tilskipunina skortir fyrirsjáanleika.

Að lokum telur Evrópski persónuverndarfulltrúinn að í framtíðinni ætti aðeins að taka til greina tilskipun um varðveislu persónuupplýsinga ef hún fullnægir eftirfarandi skilyrðum:

a. Hún ætti að vera yfirgripsmikil og sannanlega samræma reglur aðildarríkjanna.

b. Tilskipunin ætti að vera tæmandi og fyrirsjáanleg.

c. Hún ætti að vera hófleg og ekki fara út fyrir það sem nauðsynlegt er.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820