Norrænar persónuverndarstofnanir óska eftir upplýsingum frá Facebook um vinnslu persónuupplýsinga
14. júlí 2011
Þann 8. júlí síðastliðinn óskuðu norrænu persónuverndarstofnanirnar eftir því við Facebook að fyrirtækið svaraði sameiginlegum spurningalista stofnananna um söfnun og vinnslu fyrirtækisins á persónuupplýsingum.
Þann 8. júlí síðastliðinn óskuðu norrænu persónuverndarstofnanirnar eftir því við Facebook að fyrirtækið svaraði sameiginlegum spurningalista stofnananna um söfnun og vinnslu fyrirtækisins á persónuupplýsingum.
Söfnun og vinnsla persónuupplýsinga hjá Facebook hefur þó nokkuð til umræðu í fréttum að undanförnu. Almennt virðist fólk hafa þá tilfinningu að hjá Facebook fari fram víðtæk söfnun persónuupplýsinga án þess að notandinn geri sér grein fyrir henni.
Af því tilefni ákváðu norrænu persónuverndarstofnanirnar að senda framangreindan spurningalista.
Facebook safnar, skráir og miðlar mikið af persónuupplýsingum um borgaranna, m.a. á Íslandi og öðrum norrænum löndum. Í flestum tilvikum veitir Facebook greinargóðar upplýsingar um hvernig farið er með persónuupplýsingar og hefur notandinn yfirleitt val um hvernig persónuupplýsingar notandans eru sýnilegar öðrum. Hins vegar er ekki alltaf ljóst, hversu víðtæk söfnun persónuupplýsinga fer fram hjá Facebook og í hvað upplýsingarnar eru notaðar. Af þeirri ástæðu hafa norrænu persónuverndarstofnanirnar óskað sameiginlega eftir frekari upplýsingum frá Facebook um hvernig farið er með persónuupplýsingar hjá fyrirtækinu.
Tilgangur spurningalistans er að auka gagnsæi í tengslum við meðferð persónuupplýsinga hjá Facebook, hvernig slíkar upplýsingar eru notaðar og þeim miðlað.
Norska persónuverndarstofnunin hefur nú tekið saman spurningarlista og sent Facebook en svara er óskað fyrir lok ágústmánaðar 2011. Spurningalisti norrænu persónuverndarstofnananna er aðgengilegur hér.
Framangreindur listi inniheldur spurningar á borð við hvaða grunnupplýsingar um notendur Facebook (s.s. upplýsingum um nafn og heimilisfang) safni og miðli til annarra fyrirtækja. Þá er einnig spurt um söfnun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga, þ.e. upplýsingar sem rekja má til tiltekins einstaklings.
Enn fremur er spurt um söfnun og miðlun persónuupplýsinga sem verða til með notkun smákakna (e. cookies) og ip-talna, þ.e. hina ósýnilegu söfnun upplýsinga sem getur orðið þegar farið er inn á heimasíðu Facebook eða aðrar síður.
Að lokum er rétt að nefna að fyrr á þessu ári tók norska persónuverndarstofnunin einnig saman skýrslu sem ber heitið „Social network services and privacy“ en þar er sérstaklega vikið að Facebook og hvernig það hefur verið notað í atvinnulífinu. Skýrslan er aðgengileg hér.