Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Vegna umfjöllunar um viðskipti embættisins við ráðgjafafyrirtæki

27. október 2025

Vegna umfjöllunar RÚV af viðskiptum embættisins við fyrirtækið Intra ráðgjöf slf. telur embættið rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Fyrirtækið Intra ráðgjöf slf., í eigu Þórunnar Óðinsdóttur, var upphaflega fengið til að vinna með embætti ríkislögreglustjóra tímabundið árið 2020 vegna breytinga á stjórnskipulagi embættisins. Í því fólust breytingar á skipuriti, skipulagi, stefnu og vinnulagi embættisins í heild m.a. með Lean námskeiðum og innleiðingu á verkefnastjórnun hjá öllum einingum ríkislögreglustjóra.

Í framhaldi vann félagið ásamt KPMG að mótun nýrrar stefnu embættisins sem tók gildi þann 1. desember 2021. Félagið vann áfram með ríkislögreglustjóra árið 2022 vegna færslu nýrra verkefna til embættisins en einnig verkefnastýrði félagið endurskoðun húsnæðismála embættisins og innleiðingu á nýju skipuriti sem samþykkt var í maí 2023.

Ástæða þess að ytri aðili var fenginn til að stýra þessum ákveðnu umbótaverkefnum var meðal annars mikið vinnuálag hjá embættinu vegna stórra verkefna eins og leiðtogafundar Evrópuráðsins og miklum önnum í almannavarnaverkefnum.

Eftir að mygla kom upp í húsnæði embættisins á Skúlagötu, og síðar í Skógarhlíð, og ljóst var að embættið þyrfti að flytja starfsemi sína úr húsnæðinu var félagið fengið til að verkefnastýra flutningunum í ljósi þekkingar þess á starfseminni og skamms fyrirvara flutninganna í bráðabirgðahúsnæði við Vatnagarða og á Rauðarárstíg.

Ljóst er að það var ekki góð ráðstöfun að félagið hafi sinnt búðarferðum og annarri vinnu við að innrétta tímabundið húsnæði embættisins. Ákvarðanir um innkaup hjá Jysk (áður Rúmfatalagerinn) voru hins vegar teknar af starfsmönnum embættisins og byggðu á hagkvæmum verðum.

Öll verkefni sem unnin hafa verið af félaginu fyrir embættið hafa verið sýnileg, unnin samkvæmt tímaskýrslum sem skilað er mánaðarlega auk þess sem farið hefur verið yfir verkefnin í framkvæmdastjórn og allir reikningar verið opnir á netinu.

Greiðslur til félagsins nema frá rúmum 8 milljónum króna á ársgrundvelli til rúmlega 30 milljóna króna yfir þessi tæp fimm ár. Heildarviðskiptin við félagið eru 130.499.463 kr. án vsk. frá árinu 2020 til og með júní 2025.

Í upphafi var ekki farið í útboð eða verðfyrirspurnir þar sem ekki lá fyrir að verkefnin yrðu til lengri tíma og þá var ekki til staðar rammasamningur fyrir slíka vinnu hjá ríkinu á þeim tíma. Eðlilegast hefði þó verið að fara í verðfyrirspurnir og/eða í örútboð strax í upphafi. Ríkislögreglustjóri harmar að svo hafi ekki verið gert.

Nýverið voru gerðar þær breytingar að Þórunn Óðinsdóttir, stofnandi Intra, var ráðin tímabundið í fullt starf hjá embættinu sem er hagkvæmari ráðstöfun.