Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Þessi frétt er meira en árs gömul

Útivistarreglurnar og haustið.

2. september 2003

Ábyrgir foreldrar.

Lögreglan á Ísafirði vill minna ykkur á útivistarreglurnar og þá breytingu sem varð þann 1. september sl. En þá styttist löglegur útivistartími barnanna um tvær klukkustundir.

Í þessu sambandi er rétt að minna á nýju barnaverndarlögin, sem tóku gildi þann 1. júní árið 2002. En í þeim var numið úr gildi ákvæði sem kvað á um að útivistarreglur skyldu miðast við fæðingardag. Þess í stað tók gildi ákvæði, þar sem kveðið var á um að miðað skyldi við fæðingarár. Meðfylgjandi er 92. grein barnaverndarlaga, nr.80/2002.

92. gr. útivistartími barna

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Ísskápssegullinn með útivistarreglunum ætti að vera til á hverju barnaheimili. Honum var dreift á um 700 heimili á norðanverðum Vestfjörðum fyrir tveimur árum síðan. Ef segulinn vantar þá er ykkur bent á lögregluna á Ísafirði, sem gefur fúslega slíka segla.

„Reglur eru þroska barna okkar afar mikilvægar og leggja grunn að velgengni í mannlegum samskiptum. Það er lagaleg og siðferðileg skylda okkar að kenna börnunum okkar að virða lög og reglur og þekkja sín mörk í mannlegum samskiptum. Virðing fyrir reglum styrkir einstaklinginn en veikir hann ekki.“

Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson.