Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu

22. október 2025

Dagana 28. september til 11. október slösuðust átján vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, en alls var tilkynnt um 93 umferðaróhöpp í umdæminu á umræddu tímabili.

28. 9 2025

Kl.11.27 var bifreið ekið á miklum hraða á afrein af Miklubraut í Reykjavík niður á Sæbraut, en þar rann hún á kantstein og fór síðan eina veltu, lenti aftur á hjólbörðunum og hafnaði loks á annarri bifreið. Sex unglingar voru í fyrrnefnda bílnum, sem var veitt eftirför í aðdraganda slyssins, og voru fjórir þeirra fluttir á slysadeild. Yngstur unglinganna er 13 ára og ók hann bílnum. Og kl. 21.35 féll ökumaður af rafhlaupahjóli á Laugalæk í Reykjavík, við Kirkjusand. Hann var fluttur á slysadeild.

30.9 2025

Kl. 15.01 var bifreið ekið á rafhlaupahjól á Flatahrauni í Hafnarfirði, við Helluhraun. Ökumaður rafhlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.

1.10 2025

Kl. 11.43 varð árekstur reiðhjóls og rafhlaupahjóls á gangstétt á mótum Sólvangsvegar og Álfaskeiðis í Hafnarfirði. Talið er að trjágróður hafi byrgt sýn á vettvangi með fyrrgreindum afleiðingum. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.34 var bifreið ekið inn í hringtorg á gatnamótum Baugshlíðar og Blikastaðavegar í Mosfellsbæ og aftan á reiðhjól, sem hjólað var um hringtorgið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

5.10 2025

Kl. 13.47 var bifreið ekið vestur Fífuhvammsveg í Kópavogi, yfir gatnamót við Smárahvammsveg, og á reiðhjól sem var hjólað yfir gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Rannsókn lögreglu beinist m.a. að stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð. Og kl. 19.35 varð fjögurra bíla árekstur á Reykjanesbraut í Reykjavík, við Bústaðaveg, en við það valt ein bifreiðanna. Tveir voru fluttir á slysadeild.

7.10 2025

Kl. 15.02 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Fífuhvammsvegar og Dalvegar í Kópavogi. Einn var fluttur á slysadeild. Rannsókn lögreglu beinist m.a. að stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð.

8.10 2025

Kl. 12.12 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Faxafeni í Reykjavík, sem var á leið yfir götuna. Ökumaðurinn viðurkenndi að hafa verið að horfa á símann sinn í aðdraganda slyssins. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.50 var bifreið ekið utan í hjólreiðamann í hringtorgi á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Bauhaus. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.07 valt bifreið á Hlíðarfæti í Reykjavík, við Valshlíð. Ökumaðurinn, sem var fluttur á slysadeild, sagði að vindhviða á vettvangi hefði gert honum ókleift að hafa stjórn á bifreiðinni og því fór sem fór.

9.10 2025

Kl. 22.10 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis í Reykjavík, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum hugðist ökumaður bifreiðarinnar beygja á gatnamótunum og aka suður Ingólfsstræti þegar árekstur varð með þeim. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

10.10 2025

Kl. 17.32 var bifreið ekið um Skógarsel í Reykjavík, við Miðskóga, og á rafhlaupahjól, sem var á leið yfir götuna á ómerktri gönguþverun. Ökumaður rafhlaupahjólsins, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

11.10 2025

Kl. 18.46 féll ökumaður af bifhjóli á Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Vatnsveituveg. Ökumaðurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuréttindum og ók á ótryggðu bifhjóli, var fluttur á slysadeild.