Fara beint í efnið

Þetta vefsvæði er í vinnslu. Opinber vefur er

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu

4. mars 2025

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglustjarna (.png)

Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. febrúar – 1. mars, en alls var tilkynnt um 49 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 23. febrúar. Kl. 0.51 féll ökumaður af rafskútu á Strandgötu í Hafnarfirði. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.01 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, gegnt Bauhaus, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Í aðdragandanum hafði mjög dregið úr hraða fremri bifreiðinnar og hún farið að hökta, að líkindum vegna bilunar. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. febrúar. Kl. 2.08 hafnaði bifreið utan vegar við Reykjaveg í Mosfellsbæ, gegnt Teigi, eftir að ökumaðurinn missti stjórn á henni í aflíðandi beygju. Snjór og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.53 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Laugavegi í Reykjavík, við Barónsstíg. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 27. febrúar kl. 21.22 missti ökumaður á leið suður Bakkastaði í Reykjavík, við Korpúlfsstaðaveg, stjórn á bifreið sinni. Við það hafnaði hún á umferðarskilti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 28. febrúar. Kl. 10.10 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli í Bogahlíð í Reykjavík þegar hann var að forðast árekstur við kött. Köttinn sakaði ekki, en hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.07 var bifreið ekið vestur Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði, í hringtorg við Selhellu, og aftan á aðra bifreið á sömu leið.Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.