Um 70 prósent einstaklinga ljúka birtingu sjálfir
12. nóvember 2025
Fyrir rúmu ári síðan fór fyrsta stafræna ákæran frá lögreglu til dómstóla, og í framhaldinu hófst stafrænt birtingarferli ákæra og fyrirkalla í umferðarlagabrotum í gegnum pósthólf einstaklinga á Ísland.is.

Verkefnið er samstarfsverkefni embættis ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytisins og ákæruvaldsins.
Í upphafi var gert ráð fyrir að um 30 prósent þeirra sem fengju stafræna birtingu myndu ljúka henni sjálfir í gegnum pósthólfið en niðurstöðurnar hafa farið langt fram úr væntingum. Um 70 prósent einstaklinga ljúka nú birtingu sjálfir á Ísland.is.
Fyrr á þessu ári var ferlið útvíkkað þannig að ákærur í öllum málum þar sem einn aðili er ákærður fara nú stafrænt frá ákæruvaldi til dómstóla.
Í gær hófst næsta skref í stafrænum birtingum: dómar sem dómstólar fela lögreglunni að birta munu nú geta farið í stafrænt ferli, þar sem birting fer fram í gegnum pósthólf á Ísland.is eða með rafrænum hætti hjá lögreglu.
Þessi þróun er mikilvægt skref í átt að einfaldari, skilvirkari og umhverfisvænni þjónustu stjórnvalda.