Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar á milli ára

20. janúar 2026

Á landsvísu fékk lögregla 2.485 tilkynningar um slík mál árið 2025. Er það rúmlega 2% aukning samanborið við síðustu þrjú ár á undan og ef aðeins er litið til ársins 2024 var tæplega 3% fjölgun tilkynninga. Jafngildir það að meðaltali tæplega 7 tilkynningum á dag, eða 207 tilkynningum á mánuði. Flest heimilisofbeldismál voru skráð í desember, eða 138.

skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra og tengdra aðila fyrir árið 2025 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar.

Mikil aukning í endurteknu ofbeldi

Áberandi er aukning tilvika sem flokkast undir endurtekna eða alvarlega hótun gegn lífi og heilsu samkvæmt 218 gr. b almennra hegningarlaga. Slík tilvik voru 156 árið 2025 miðað við 116 árið 2024, sem er tæplega 35% aukning.

Beiðnir um nálgunarbann voru 95, og fjölgaði þeim um 16% miðað við árið 2024. Ef borið er saman við meðaltal síðustu þriggja ára á undan fækkaði beiðnum um 5%.

Ofbeldi foreldris gegn barni eykst

Ef tengsl árásaraðila og árásarþola eru skoðuð árið 2025 kemur í ljós að heimilisofbeldismál milli para, núverandi eða fyrrverandi voru 791, eða 63% málanna og fjölgaði um tæp 4% samanborið við síðustu þrjú ár.

Tilkynningar um ofbeldi foreldris í garð barns (óháð aldri barns) jukust úr 142 tilvikum árið 2024 í 160 tilvik árið 2025, eða um 13%. Í heildina voru karlar grunaðir um að vera árásaraðilar í tæplega 74% allra heimilisofbeldismála og konur voru 65% árásarþola. Meðalaldur árásaraðila var 36,6 ár og meðalaldur árásarþola var 33,5 ár. Þegar aldursdreifing er skoðuð kemur í ljós að 26% árásarþola voru yngri en 26 ára árið 2025 og 19% árásaraðila.

Oftar metið heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu

Í skýrslunni kemur fram að 26% heimilisofbeldismála tilkynnt til lögreglu voru á landsbyggðinni og 74% á höfuðborgarsvæðinu. Þegar horft er til ágreiningsmála voru 33% slíkra mála á landsbyggðinni og 67% á höfuðborgarsvæðinu. Ef horft er til mannfjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni 1. janúar 2025 voru um 64% íbúa á höfuðborgarsvæðinu og 36% á landsbyggðinni.

Í þolendakönnun lögreglunnar, sem lögð er fram árlega, er spurt um reynslu af afbrotum árið áður. Í niðurstöðum könnunarinnar árið 2025 sögðu 1,3% svarenda hafa orðið fyrir heimilisofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka og af þeim sögðust 29% hafa tilkynnt tilvikið til lögreglu. Í Íslensku æskulýðsrannsókninni árið 2025 sögðust 7% nemenda í 9. bekk og 9% nemenda í 10. bekk hafa orðið vitni að ofbeldi gegn foreldri.

Skýrsluna má finna hér.

Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða fyrir þolendur, aðstandendur, og árásaraðila til að láta af hegðun sinni.


Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra í síma 444 2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is