Skipulögðum brotahópum hefur fjölgað um helming
14. nóvember 2025
Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt nýja skýrslu um skipulagða brotastarfsemi 2025.

Skipulögð brotastarfsemi hefur á undanförnum áratugum orðið ein helsta áskorun lögreglu og annarra löggæsluaðila á heimsvísu. Ísland er ekki undanskilið þessari þróun og íslensk lögregla býr við breyttan löggæsluveruleika.
Skipulögðum brotahópum hefur fjölgað um helming hér á landi á síðasta áratugi og hafa þeir fest sig í sessi í íslensku samfélagi. Þegar rýnt er til þróunar síðustu fimm ára má greina stigmögnun í starfsemi brotahópa hérlendis og aukinn sýnileika. Stigmögnunin felst meðal annars í aukinni tíðni og alvarleika ofbeldis, umfangsmeiri brotum og aukinni aðsókn erlendra brotahópa hingað til lands. Þróunin er hröð og hún á sér stað þrátt fyrir aukna viðspyrnu löggæsluaðila í málaflokknum.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
Þeir skipulögðu brotahópar sem starfandi eru á Íslandi í dag eru fyrst og fremst hagnaðardrifnir, tækifærissinnaðir og fljótir að tileinka sér nýjar aðferðir í brotastarfseminni.
Brotahópar hagnýta viðkvæma einstaklinga s.s. ungmenni eða aðra einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Dæmi eru um að þeir leiti uppi umsækjendur um vernd í búsetuúrræðum yfirvalda.
Netbrot eru í stöðugum vexti á Íslandi og líklegt er að þau verði stór hluti af verkefnum lögreglu innan fárra ára.
Auknar vísbendingar eru um mansal á Íslandi. Aukningu má m.a. sjá í vændismansali sem er að stórum hluta stýrt af skipulögðum brotahópum með alþjóðlegar tengingar.
Vaxandi spenna í alþjóðamálum hefur leitt til aukinna tengsla skipulagðra brotahópa við hryðjuverk og erlend ríki.
Ef horft er til framtíðar telur greiningardeild ríkislögreglustjóra mikilvægt að tryggja að lögreglan sé betur í stakk búin til að bregðast við tækniþróun og aukningu á sviði netbrota. Leggja þurfi megináherslu á vinnu gegn peningaþvætti, auk þess sem mikilvægt sé að styðja áfram við rannsóknar- og greiningargetu á sviði skipulagðrar brotastarfsemi.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is.