Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Samstaða og skýrar áherslur á öðrum fundi Öruggari Vestfjarða

8. maí 2025

Annar samráðsfundur Öruggari Vestfjarða fór fram miðvikudaginn 7. maí í Sauðfjársetrinu að Sævangi og fór þátttaka fram úr björtustu vonum.

Þar komu saman fjölbreyttur hópur fagfólks, stjórnvalda og fulltrúa samfélagsins til að ræða hvernig megi efla forvarnir og bæta viðbrögð við ofbeldi og afbrotum á Vestfjörðum.

Áhersla var lögð á farsæld barna og ungmenna, sem og stuðning við fjölskyldur, úrræði fyrir fólk með geðvanda, og samstarf í málum heimilisofbeldis. Fundurinn var hluti af verkefninu Öruggari Vestfirðir, sem miðar að auknu samráði og samvinnu þeirra sem koma að ofbeldis- og öðrum afbrotavörnum í landshlutanum.

Kona heldur kynningu og sýnir glæru á vegg.

Einn áhrifamesti punktur fundarins var brýning Hildar Ásu Gísladóttur, varaformanns Ungmennaráðs Vestfjarða, sem lýsti upplifun sinni sem ungmenni af lífinu á svæðinu – miklu öryggi og samheldni en um leið tilfinningu fyrir fjarlægð frá viðbragðsaðilum ef eitthvað fer úrskeiðis. Orð hennar vöktu mikla athygli og undirstrikuðu mikilvægi þess að rödd unga fólksins fái vægi í umræðum um forvarnir og úrræði.

Ung kona heldur ræðu.

Í lok fundar voru teknar saman niðurstöður og kynnt næstu skref í innleiðingu samstarfsyfirlýsingarinnar Öruggari Vestfirðir. Samráðsfundurinn var sammála að leggja áfram áherslu á farsæld barna og ungmenna, þróun á sameiginlegu þverfaglegu heimilisofbeldisverklagi og bættri þjónustu vegna geðvanda fram að næsta samráðsfundi að ári.

Erna Lea Bergsteinsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs hjá Vestfjarðastofu:

Til að tryggja farsæld barna og ungmenna þurfum við að horfa á forvarnir sem samvinnuverkefni allra – skóla, félagsþjónustu, íþróttahreyfinga og heilbrigðisþjónustu. Það er hér sem við getum haft raunveruleg áhrif.

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum:

Afbrotavarnir snúast ekki bara um viðbrögð – þær snúast um að byggja upp traust, þekkingu og tengsl í nærumhverfinu. Öruggari Vestfirðir er tækifæri til að gera einmitt það – svo tryggja megi öryggi allra íbúa og gesta á Vestfjörðum.

Sjá nánar:

Vestfirðingar taka höndum saman um Öruggari Vestfirði

Um svæðisbundið samráð og samfélagslöggæslu

Ætíð skal hafa samband við 112 í neyð.