Oftar tilkynnt um kynferðisbrot gegn börnum
26. janúar 2026
Skýrsla ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot hefur verið birt. Í skýrslunni má finna upplýsingar um fjölda tilkynninga til lögreglu vegna kynferðisbrota árið 2025. Tilkynnt brot voru 629 talsins, sem er 13% aukning tilkynninga frá árinu 2024.

Lögreglan skráir bæði hvenær kynferðisbrotið átti sér stað og hvenær það var tilkynnt til lögreglu þar sem í hluta mála líður langur tími þar á milli. Í fyrra var tilkynnt um 194 nauðganir til lögreglu og þar af 142 sem áttu sér stað á árinu. Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um 5% miðað við árið 2024. Ef horft er til meðaltals tilkynninga síðustu þrjú ár þar á undan, fækkaði þeim um 6%.
Alls var tilkynnt um 133 kynferðisbrot gegn börnum og samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára var 18% fjölgun slíkra mála. Tilkynningar um barnaníð voru 51, sem er 53% fjölgun slíkra tilkynninga samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan.
Mikill aldursmunur milli brotaþola og grunaðra
Konur voru 83% brotaþola í öllum kynferðisbrotum sem tilkynnt voru til lögreglu. Hlutfallið var enn hærra þegar horft var til nauðgana, þar voru 92% brotaþola kvenkyns. Hlutföllin snúast við þegar kemur að kyni grunaðra, þar voru 93% karlkyns í kynferðisofbeldismálum sem tilkynnt eru til lögreglu.
Töluverður aldursmunur var á milli brotaþola og grunaðra. Meðalaldur brotaþola var 23 ár, á meðan meðalaldur grunaðra var 34 ár. Um 46% brotaþola voru undir 18 ára í öllum kynferðisbrotum á meðan 12% grunaðra voru undir 18 ára. Hlutfall brotaþola undir 18 ára í nauðgunarbrotum var 30% og hlutfall grunaðra undir 18 ára var 12%.
Mikil aukning tilkynninga um vændi
Tilkynningar um vændi jukust verulega á milli ára, úr 29 málum árið 2024 í 69 árið 2025, sem er 138% aukning. Samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára er um 245% aukningu að ræða. Sveiflur í þessum flokki geta tengst frumkvæðisvinnu lögreglu, og aukinni áherslu stjórnvalda á skipulagða brotastarfsemi.
Fjölgun tilkynninga og vísbendingar um fækkun brota
Eitt af meginmarkmiðum lögreglunnar undanfarin ár hefur verið að hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og tilkynna það til lögreglu aukist um leið og kynferðisbrotum fækki.
Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2025 benda til fækkunar. Hlutfall nemenda sem segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi fullorðins eða einstaklings fimm árum eldri yfir ævina lækkaði hlutfallslega í 8. bekk um helming og um 17% í 10. bekk frá árinu 2023. Einnig fækkaði þeim sem sögðust hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi frá hendi annars unglings. Stúlkur upplifa slíka misnotkun oftar en drengir og hlutföllin fara hækkandi með aldri.
Þolendakönnun lögreglu frá 2025 sýnir að stór hluti kynferðisbrota er aldrei tilkynntur lögreglu, en þátttakendur eru 18 ára og eldri. Af svarendum sögðust 2,1% hafa orðið fyrir kynferðisbroti árið áður. Af þeim tilkynntu tæplega 10% brotið til lögreglu. Til samanburðar tilkynntu um 42% þeirra sem urðu fyrir ofbeldisbroti málið til lögreglu og 29% ofbeldi af hendi maka, núverandi eða fyrrverandi.
Skýrsluna má finna hér.
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða fyrir þolendur, aðstandendur, og árásaraðila til að láta af hegðun sinni. Þá má einnig finna þar leiðarvísir um meðferð kynferðisofbeldis í réttarkerfinu.
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is