Netglæpir
22. júlí 2025
Síðastliðna tvo mánuði hafa lögreglu borist yfir 100 tilkynningar um netglæpi. Þetta sýnir aðeins hluta af heildarmyndinni þar sem fæst þeirra mála sem varða fjársvik yfir netið eru tilkynnt til lögreglunnar.

Talsvert hefur borið á því að brotamenn hringi í fólk úr því sem virðast vera íslensk símanúmer og þykist vera frá t.d. stórum tölvufyrirtækjum eða fjármálafyrirtækjum. Segja þeir frá því að viðkomandi eigi fúlgur fjár í formi rafmyntar á reikningi sem þarf að leysa út og ætla að leiða viðkomandi á rétta braut til að fá allan aurinn skipt yfir í evrur og sendar heim. Einnig eru svokölluð fyrirframgreiðslusvik eru mjög algeng. Dæmi um fyrirframgreiðslusvik er þegar kaupandi greiðir fyrir leigu á orlofshúsnæði erlendis en þegar greiðslan hefur farið fram þá dettur eignin sem er til leigu út af vefsvæðinu sem auglýsti hana.Þá hafa mál sem varða fjarskiptasvik einnig verið áberandi síðustu vikur.
Vill lögregla því nýta tækifærið til að vara sérstaklega við slíkum svikum. Alls ekki setja upp forrit í tölvur eða síma að beiðni aðila í svona tilvikum og ekki senda aðilum mynd af vegabréfi eða öðrum persónuskilríkjum.
Fyrirsvarmönnum fyrirtækja er sérstaklega bent á að vera vel á verði þegar verið er að framkvæma erlendar greiðslur. Borið hefur á því að erlendir brotahópar hakki sig inn í samskipti milli kaupenda og seljenda og reyni að komast inn í tölvupóstssamskipti og framhaldinu fái brotaþola til að millifæra á sig en brotaþoli heldur að millifærslan sé að fara á rétta aðila.
Eins og áður segir hafa yfir 100 tilkynningar borist lögreglu síðastliðna tvo mánuði og hafa brotaþolar tapað yfir 200 milljónum króna í fjársvikum yfir netið á því tímabili, svo vitað sé.
Andvirði tilrauna til fjársvika yfir netið nemur rúmum 1 milljarði króna á sama tímabili.
Að lokum ber að vara við hvers kyns netglæpum, en reynslan hefur sýnt að þeir færast í vöxt yfir sumarmánuðina og algengt að nýttar séu helgar eins og Verslunarmannahelgin þar sem þá er frídagur á mánudag.
Hafir þú eða teljir þig hafa orðið fyrir netglæp mælum við með því að þú tilkynnir það strax til þíns viðskiptabanka og með því að senda lögreglu tölvupóst á cybercrime@lrh.is.