Met í haldlagningu fíkniefna - bráðabirgðatölfræði lögreglu 2025
31. desember 2025
Árið 2025 var viðburðaríkt hjá lögreglu. Á árinu voru útköll lögreglu að meðaltali um 102 á dag sem jafngildir um fjórum útköllum á hverri klukkustund.

Verkefni lögreglu geta verið margvísleg og tengjast ekki alltaf afbrotum heldur einnig veikindum, slysum eða öðru sem fólk þarf aðstoðar með. Könnun lögreglu sýnir að um 27% landsmanna leita til lögreglu eftir þjónustu eða aðstoð árlega.
Hegningarlagabrot voru um 12.500 á árinu sem jafngildir um 34 brotum á dag. Um er að ræða 3% færri brot (↓) en meðaltal áranna 2022-2024. Langtum flest hegningarlagabrot eru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (75% hegningarlagabrota) eða tæplega 9.200 brot, eða um 25 hegningarlagabrot á dag.
Met var í haldlagningu fíkniefna á árinu. Lögregla og tollgæsla lögðu hald á um 468 kg. af maríjúana og 106 kg. af kókaíni á árinu og hefur ekki áður verið lagt hald á slíkt magn. Stór hluti efnanna fannst í innflutningsmálum. Þá var lagt hald á 66 kg. af hassi sem er vel yfir meðaltali haldlagðs magns árin 2007-2025. Þegar litið er til stórfelldra fíkniefnabrota voru innflutningsmál áberandi, og voru þau rétt tæplega 140 talsins sem er 79% aukning (↑) miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.
Árið 2025 voru tæplega 3.400 þjófnaðir tilkynntir til lögreglu og tæplega 1.100 innbrot (↓2%). Þá voru fjársvik fleiri (↑37%) en síðastliðin þrjú ár á undan en rán færri (↓11%). Vasaþjófnaður var áberandi á árinu, og komu skipulagðir hópar til landsins til að stunda slíka brotastarfsemi. Áður hefur vasaþjófnaður almennt verið sjaldséður hér á landi.
Sérsveit var kölluð út 420 sinnum vegna tilkynninga um vopn á vettvangi. Oftast var um að ræða að tilkynnt væri um hníf eða eggvopn á árinu, eða í 73% útkallanna.
Frekari tölfræði frá árinu má finna hér.