Mannslát í Kópavogi – gæsluvarðhald til 17. desember
10. desember 2025
Karlmaður um þrítugt var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 17. desember, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á mannsláti í Kópavogi um þar síðustu helgi.

Um er að ræða sama mann og sat í gæsluvarðhaldi vegna fyrrnefnds máls, en það rann út í gær og var honum þá sleppt úr haldi. Framvinda í rannsókn málsins leiddi hins vegar til þess að maðurinn var handtekinn öðru sinni og í framhaldinu var aftur krafist gæsluvarðhalds yfir honum, sem héraðsdómur féllst á líkt og að framan greinir.