Lagt hald á 20 kg af marijúana
10. júlí 2025
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók sex manns í síðustu viku í þágu rannsóknar hennar á innflutningi fíkniefna og sátu þrír þeirra í gæsluvarðhaldi um tíma.

Framkvæmdar voru sjö húsleitir í umdæminu og var lagt hald á rúmlega 20 kg af marijúana, sem voru falin í vörusendingum. Fíkniefnin fundust við bæði eftirlit tollgæslunnar og við leit í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði.
Rannsókn málsins miðar vel.
Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.