Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Ísland í öndvegi í málefnum landamæra

21. mars 2025

Þriðjudaginn 18. mars stóð embætti ríkislögreglustjóra að vinnustofu um málefni landamæra.

Ísland í öndvegi í málefnum landamæra

Í vinnustofunni, sem bar nafnið Ísland í öndvegi í málefnum landamæra, komu saman um 80 fagaðilar í landamærastjórnun og fulltrúar frá ýmsum stofnunum; Frontex, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands, lögregluembættum, Útlendingastofnun, dómsmálaráðuneyti, Héraðssaksóknara og Skattinum.

Vinnustofan hófst með opnunarorðum frá Jóni Pétri Jónssyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra og fulltrúa Íslands í stjórnarborði Frontex, sem kynnti aðalgest dagsins, Hans Leijtens, framkvæmdastjóra Frontex. Í ávarpi sínu talaði Leijtens um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs, og að:

...í okkar samtengda heimi [væru] einhliða aðgerðir ekki valkostur.“

Til að kljást við áskoranir fram á við væri mikilvægt að Frontex og samstarfsríki ynnu að sameiginlegum aðgerðum á ytri landamærum, deildu upplýsingum sín á milli, og sýndu hvort öðru stuðning í verki; en einnig að samræma stefnur, staðla verklag og fjárfesta í tæknilausnum.

Að loknu ávarpi framkvæmdastjórans fóru fram líflegar pallborðsumræður. Umræðum stýrði Íris Björg Kristjánsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og landamærasviðs ríkislögreglustjóra. Gestir í pallborðsumræðum voru Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Kari Loukkanhuhta, Head of Unit hjá Frontex, Ómar Mehmet Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, Roman Fantini, tengslafulltrúi Frontex gagnvart Íslandi, og Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslu Íslands.

Í seinni hluta vinnustofunnar fór fram hópavinna þar sem gestum var skipt niður í fjóra hópa, en hver hópur ræddi afmarkað svið í málefnum landamæra. Hóparnir fjórir ræddu evrópska samþætta landamærastjórnun, stöðuna á sjólandamærunum, skipulagða brotastarfsemi, og áhættugreiningu.