Innleiðing á nýju landamærakerfi miðar vel
7. nóvember 2025
Innleiðing á nýju komu- og brottfararkerfi (EES) hófst þann 12. október á Keflavíkurflugvelli og hefur gengið vonum framar.
Fyrstu tveir einstaklingarnir voru skráðir inn í kerfið sama dag en samkvæmt áætlun þarf að framkvæma að minnsta kosti 700 skráningar á dag frá og með 10. nóvember. Það markmið náðist í síðustu viku, sem bendir til að Ísland verði vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar um fjölda skráninga í EES.
Verkefnið er stærsta tækniverkefni íslenskra lögregluyfirvalda á undanförnum árum og koma fjölmargir aðilar að innleiðingunni með embætti ríkislögreglustjóra sem hefur stýrt verkefninu. Innleiðingin hefur m.a. falið í sér nýjan búnað og tæki auk nýrrar hugbúnaðarlausnar og nýs verklags á landamærum.
Sérstaklega skal hrósa fyrirtaks samstarfi við starfsfólk Lögreglustjórans á Suðurnesjum, ekki síst landamæraverði, sem hafa sýnt mikla fagmennsku og aðlögunarhæfni við innleiðingu EES á Keflavíkurflugvelli. Sömuleiðis hefur gott samstarf við Isavia, Útlendingastofnun og önnur lögregluembætti gegnt lykilhlutverki við innleiðingu kerfisins.
Verkefnið er einn hluti af innleiðingu svokallaðra snjalllandamæra Evrópusambandsins (e. Smart Borders) sem er leitt af sameiginlegum stýrihópi dómsmálaráðuneytis, Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra. Verkefnateymi frá alþjóða- og landamærasviði og þjónustusviði ríkislögreglustjóra hefur unnið markvisst að uppsetningu, prófunum og tengingu kerfisins við önnur landskerfi og Schengen-upplýsingakerfi. Til að tryggja örugga og skilvirka virkni hefur einnig verið komið á sérstökum samþættingarlögum og tölvuumhverfi lögreglunnar í heild styrkt.
Innleiðing EES er mikilvægur áfangi í að efla öryggi á landamærum Íslands og felur í sér stór framfaraskref í samþættri landamærastjórnun Schengen-ríkjanna. Nú stendur yfir fyrsti innleiðingarfasi kerfisins en stefnt er að fullri innleiðingu þann 10. apríl 2026.