Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Innleiðing á nýju komu- og brottfarakerfi hófst í gær

13. október 2025

Í gær hófst innleiðing á nýju komu- og brottfarakerfi Schengen-svæðisins (EES). Innleiðingin, sem er stigskipt, hófst á sama tíma hjá öllum Schengen-ríkjunum en gert er ráð fyrir að kerfið verði full innleitt á öllum ytri landamærum ríkjanna í mars 2026.  

Undirbúningur vegna innleiðingarinnar hefur staðið yfir frá 2017 og hefur Þjónustusvið og Landamæradeild ríkislögreglustjóra leitt verkefnið sem er það stærsta sinnar tegundar hér á landi.  

Nýtt landamærakerfi mun auka öryggi verulega með verulega með samræmdri afgreiðslu og eftirliti með för fólks yfir ytri landamæri í öllum aðildarríkjum Schengen-svæðisins. Skráðar verða allar komur og brottfarir ríkisborgara utan Schengen-svæðisins inn á svæðið og þannig næst betri yfirsýn yfir það hverjir dvelja á svæðinu á hverjum tíma. Þá verða upplýsingar um brot gegn heimiluðum dvalartíma auk upplýsinga um frávísanir eða brottvísanir af svæðinu aðgengilegar með þægilegri hætti milli landa.  

Með innleiðingu EES og öðrum snjall-lausnum á landamærum styrkist alþjóðlegt lögreglusamstarf í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi, mansali, vopnasmygli og hryðjuverkum.  
 
Innleiðing á EES kerfinu hefur engin áhrif á ferðir ríkisborgara Schengen-ríkjanna né þeirra sem hafa leyfi til lengri dvalar á svæðinu. Markmiðið er að tryggja örugga og skilvirka för fólks, án þess að skerða réttindi þeirra sem ferðast löglega innan svæðisins.