Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Góða skemmtun á 17. júní

15. júní 2025

Veðrið hefur leikið við landsmenn um helgina. Framundan er 17. júní - þjóðhátíðardagur Íslendinga, þar sem víða verður boðið upp á skrúðgöngu, tónleika, leiki og skemmtanir fyrir börn og fullorðna. Lögreglan, Neyðarlínan og samstarfsaðilar standa að vitundarvakningunni Góða skemmtun – sumar 2025 þar sem lögð er áhersla á að viðburðir sumarsins – líkt og 17. júní – séu öruggir, án ofbeldis og til eftirbreytni fyrir öll.

Á sumrin eykst tími til útivistar, frítími verður meiri og fleiri tækifæri til samveru. Rannsóknir sýna að börn sem eiga fleiri gæða samverustundir með foreldrum sínum meta andlega líðan sína betri (Rannsóknir og greining 2022). Nýtum hátíðardaga vel og búum til góðar minningar saman.

Dæmi um dagskrá víða um land:

Í Reykjavík er dagskráin fjölbreytt. Dagurinn hefst með hátíðarathöfn á Austurvelli kl. 11.10 þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir heldur ávarp. Skrúðgangan leggur af stað kl. 13.00 frá Hallgrímskirkju og verður gengið niður Skólavörðustíg að hátíðarsvæðinu í Hljómskálagarði. Þar og á Klambratúni verður líf og fjör með tónleikum, götuleikhúsi, dans, sirkus, leiktækjum, matarvögnum og fornbílasýningu.

Í Kópavogi,Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi verður fjölskylduvæn dagskrá með skrúðgöngum, tónlist, hoppuköstulum og skemmtun fyrir börn.

Á Ísafirði og Selfossi verður fjörug hátíð með karamelluregni, hestum og andlitsmálningu. Á Ísafirði er jafnframt fagnað 100 ára afmæli Safnahússins og eldri borgarar á Selfossi verða með kvöldvöku eldri borgara í Mörkinni – Grænumörk.

Í Reykjanesbæ hefst dagskráin með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju klukkan 12.00. Að henni lokinni verður gengið í Skrúðgarðinn þar sem hátíðardagskrá og fjölbreytt dagskrá fer fram með þátttöku listamanna og íþróttafólks úr bæjarfélaginu.

Í Fjarðabyggð og Hvolsvelliverður áhersla lögð á menningu, sögu og samveru fyrir alla aldurshópa.

Nánari upplýsingar um hátíðardagskrá má finna á vefsíðum sveitarfélaga um land allt.

Góð skemmtun er örugg fyrir öll. Góða skemmtun á 17. júní. 112 aðstoðar í neyð.