Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Fleiri tilkynningar um ofbeldi milli fjölskyldumeðlima

11. desember 2025

Lögreglunni bárust rétt tæplega 900 tilkynningar um heimilisofbeldi á fyrstu níu mánuðum ársins 2025. Þetta er 7% hækkun frá sama tímabili árið 2024, þegar tilkynningar voru 835. Miðað við meðaltal síðustu þriggja ára, 854 tilkynningar, er þetta 5% aukning.

Ný skýrsla um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir tímabilið janúar til og með september 2025 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar.

Fjölgun tilkynninga um ofbeldi milli fjölskyldumeðlima

Af þeim 896 tilkynningum voru 555 tilvik þar sem ofbeldi var af hendi maka eða fyrrum maka, samanborið við 546 á sama tímabili 2024. Tilvik þar sem ofbeldi átti sér stað milli fjölskyldumeðlima jukust, eða úr 262 í 305 milli ára, sem er 16% aukning. Tilvik þar sem önnur tengsl voru á milli geranda og þolanda voru 36 talsins.

Árásaraðilar voru 779 talsins á tímabilinu, samanborið við 715 árið 2024, sem er 9% aukning. Fjöldi árásarþola jókst úr 820 í 921, eða um 12%, og voru 66% þeirra konur og 24% karlmenn. Um 74% árásaraðila voru karlmenn og 26% konur. Meðalaldur árásaraðila var 36,4 ár en árásarþola 33,4 ár. Um 20% árásaraðila voru börn og 32% árásarþola.

Fjölgun tilkynninga um alvarlegt ofbeldi

Tilkynningar um endurtekið ofbeldi eða þar sem lífi, heilsu eða velferð fjölskyldumeðlima er ógnað á alvarlegan hátt, samkvæmt 218. gr. b almennra hegningarlaga, voru 105 samanborið við 79 á sama tímabili 2024 sem er 33% aukning milli ára.

Lögreglunni bárust 81 beiðni um nálgunarbann og/eða brottvísun tengdar heimilisofbeldismálum á fyrstu níu mánuðum ársins 2025, samanborið við 59 á sama tímabili 2024.

Færri ágreiningsmál skráð

Þá bárust 936 tilkynningar til lögreglu um ágreining milli skyldra eða tengdra aðila þar sem ekki var grunur um brot. Þetta er 2,5% lækkun frá árinu áður þegar tilkynningar voru 960. Af þessum tilkynningum voru 633 tilvik ágreinings milli maka eða fyrrum maka, 230 tilvik ágreinings milli fjölskyldumeðlima og 73 tilvik þar sem tengsl voru önnur.

Um 74% tilvika heimilisofbeldis áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu en 26% á landsbyggðinni. Þegar horft er til ágreinings var skiptingin svipuð með 66% á höfuðborgarsvæðinu og 34% á landsbyggðinni.

Skýrsluna má finna hér.


Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má einnig finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða þar með talið leiðarvísar um meðferð mála í réttarkerfinu

https://www.112.is/leidarvisar

Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks.

Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.


Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is.