Fjölmennt á kynningarfundi um undirróðursherferðir erlendra ríkja
21. október 2025
Ríkislögreglustjóri og Fjölmiðlanefnd stóðu fyrir fundi um undirróðursherferðir erlendra ríkja í byrjun mánaðar í samstarfi við sænsku stofnunina Myndigheten för psykologiskt försvar.

Fundurinn var vel sóttur af starfsfólki innan stjórnsýslunnar og fræðasamfélagsins auk starfsfólks ýmissa fjölmiðla. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri greiningardeildar ríkislögreglustjóra, opnaði fundinn með erindi um fjölþáttaógnir.
Myndigheten för psykologiskt försvar heyrir undir varnarmálaráðuneyti Svíþjóðar og hefur það hlutverk að styrkja áfallaþol sænsku þjóðarinnar í tengslum við undirróðursherferðir erlendra ríkja. Á fundinum var fjallað um það hvernig unnið er gegn undirróðursherferðum frá erlendum ríkjum í Svíþjóð en slíkum herferðum er oftast ætlað að skaða innlenda hagsmuni.
Markmið fundarins var að gefa gestum færi á að kynnast nálgun sænskra stjórnvalda um hvernig hægt er að greina og bregðast við undirróðursherferðum frá erlendum ríkjum á sama tíma og tjáningarfrelsið og hið lýðræðislega samfélag er verndað.
