Eftirlit með veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu
7. mars 2025
Undanfarna daga hafa Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Skatturinn farið í sameiginlegt eftirlit á tæplega eitt hundrað veitingastaði í umdæminu til að kanna hvort öll tilskilin leyfi væru þar fyrir hendi og að rétt væri staðið að öllum málum, bæði er varðar reksturinn og starfsmenn.

Tók eftirlitið m.a. til skattskila, atvinnuréttinda starfsmanna og brunavarna svo eitthvað sé nefnt. Í flestum tilvikum voru hlutirnir í lagi, en aðfinnslur voru þó gerðar á allmörgum veitingastöðum.
Snéru þær m.a. að því að starfsmenn voru ekki á launaskrá, höfðu ekki réttindi til vinnu hérlendis og skattskilum var ábótavant.
Á annan tug mála var vísað til frekari skoðunar hjá heilbrigðisyfirvöldum og eldvarnareftirliti slökkviliðsins.
Eftirlitinu verður framhaldið.