50 ár í löggunni
1. október 2025
Það verður að teljast einskonar afrek að fagna 50 ára starfsafmæli í lögreglunni líkt og Vestmanneyingurinn Þröstur E. Hjörleifsson gerir í dag enda starfið oft og iðulega mjög krefjandi.

Hann hóf störf hjá lögreglunni í Kópavogi 1. október 1975, þá rétt að verða 21 árs, en Þröstur var m.a. varðstjóri á vöktunum um áratugaskeið, auk þess að sinna ýmsum öðrum lögreglustörfum á sínum langa ferli. Margir muna örugglega líka eftir umferðarfræðslu lögreglunnar, en þar stóð Þröstur vaktina í rúmlega aldarfjórðung og fór reglulega þeirra erinda í alla skóla í Kópavogi, auk fræðslu fyrir eldri borgara. Og samhliða öllu þessu annaðist hann í aukavinnu enn fremur söluskattsinnheimtu og dómafullnustu fyrir bæjarfógetann í Kópavogi um langt skeið.
Þröstur lét af störfum sem lögreglumaður 2019, árið sem hann varð 65 ára líkt og lögreglumönnum ber þá að gera lögum samkvæmt. Frá þeim tíma hefur hann svo séð um boðanir og fyrirköll í hálfu starfi fyrir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað með aðsetur á lögreglustöðinni í Kópavogi. Ferill Þrastar verður ekki rakinn hér frekar, en við verðum þó að síðustu að geta um listfengi hans. Þröstur er nefnilega annálaður fyrir skrautskrift, auk þess að teikna og mála og hefur haldið sýningar á verkum sínum.
Þrátt fyrir hálfrar aldar starf í lögreglunni er Þröstur ekkert á þeim buxunum að setjast í helgan stein og því viðbúið að við fáum að njóta starfskrafta hans áfram um sinn. Á þessum merku tímamótum er Þresti óskað innilega til hamingju með starfsafmælið um leið og honum er þakkað fyrir vel unnin störf í lögreglunni síðustu 50 árin.


