Verkjamiðstöð - verkjateymi Landspítala
Efnisyfirlit
Þjónusta
Hlutverk verkjamiðstöðvar - verkjateymis er að greina, meðhöndla og veita ráðgjöf vegna verkjavandamála sem krefjast sérfræðimeðferðar. Hún sinnir sjúklingum með langvinna eða erfiða verki, bæði inniliggjandi og á göngudeild, óháð aldri eða deild. Einnig er tekið við tilvísunum frá heilsugæslu eða sérfræðingum utan Landspítala vegna fólks með langvinna verki sem þurfa sérhæfða meðferð.
Á miðstöðinni starfar þverfaglegur hópur sérfræðinga með sérþekkingu á verkjameðferð, þar á meðal læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sálfræðingur, lyfjafræðingur og ritari.
Starfsemi og þjónusta
Starfsemin er fjölbreytt og felur meðal annars í sér:
Greiningu og mat á verkjum sjúklinga.
Ráðgjöf til heilbrigðisstarfsfólks og stofnana um verkjameðferð.
Framkvæmd sértækra inngripa eins og ísetningar mænuörva, rafbylgjumeðferðar (radio frequency), deyfinga og lyfjagjafar.
Kennslu, fræðslu, gæða- og umbótastarf og vísindarannsóknir.
Beiðni um þjónustu
Þörf er á tilvísun frá fagaðila til að komast í þjónustu hjá Verkjamiðstöð - verkjateymi.
Ósk um ráðgjöf fyrir inniliggjandi sjúklinga:
Senda þarf beiðni um ráðgjöf í Sögu sem er stíluð á verkjamiðstöð (deild sem óskað er ráðgjafar frá). Beiðnum er svarað eins fljótt og kostur er en ekki er hægt að gera ráð fyrir samdægurs ráðgjöf.
