Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Sérnám í bæklunarskurðlækningum

Uppbygging náms og framvindumat

Boðið er upp á 2ja ára sérfræðinám á Íslandi en gert ráð fyrir að síðari hluti námsins fari fram erlendis.

Unnið er eftir Sérfræðihandbók bæklunarlækna, en marklýsingin er gerð af fræðslunefnd Sænska bæklunarlæknafélagsins (SOF), staðfærð og aðlöguð að íslenskum aðstæðum af Íslenska bæklunarlæknafélaginu.

Handbókin byggir á 20 áföngum:

  • áfangi 1-12 klínísk þekking

  • 13-18 samskipta- og stjórnunarhæfni

  • 19-20 gæðastjórnun og rannsóknir.

Uppbygging sérnáms

Sérnám í bæklunarskurðlækningum á að fara fram á bæklunarskurðdeildum sem hafa verið metnar hæfar af mats- og hæfisnefnd samkvæmt gildandi reglum. Allir sérnámslæknar eiga að hafa leiðbeinanda sem hefur þekkingu á handleiðslu og hefur lokið handleiðaranámskeiði. Efling á færni í teymisvinnu, stjórnun og kennslu ásamt grunnþekkingu í vísindalegri aðferðafræði á að vera samfellt allan tíma sérnámsins.

Sérnámi í bæklunarskurðlækningum má skipta í fjögur þrep sem byggja á fræðilegri þekkingu og klínískri vinnu. Áhersla er hér á landi á þrep 1 og 2.

  • Þrep 1 - Slys og áverkar.
    Bráðabæklunarskurðlækningar, áverkar á stoðkerfi.

  • Þrep 2 - Grunn bæklunarskurðlækningar.
    Gerviliðir í mjöðm, speglunaraðgerð á hnjám, einfaldar handar- og fótaaðgerðir og aðgerðir vegna brota.

  • Þrep 3 - Hliðarnám.
    Skylduhliðarnám er í svæfingum en sérnámslæknum gefst möguleiki á hliðarnámi í handarskurðlækningum, heila- og taugaskurðlækningum, almennum skurðlækningum, æðaskurðlækningum, lýtalækningum, gigtarlækningum eftir óskum hvers sérnámslæknis.

  • Þrep 4 - Ítarlegra nám í bæklunarskurðlækningum.
    Frekara nám í sérgreininni og undirgreinum, svo sem æxlum í stoðkerfi, gerviliðaaðgerðum, barnabæklunarlækningum, hryggjarbæklunarlækningum og í sjúkdómum og áverkum í efri- og neðri útlimum.

Eftirlit og vinna

Fyrsta hluta sérnámsins eiga sérnámslæknir, handleiðari, kennslustjóri og yfirlæknir að meta það hvort sérnámslæknir sé til þess fallinn að halda áfram sérnámi í sérgreininni. Reglulega skal meta frammistöðu sérnámslæknis og hann fá endurgjöf með hjálp matsblaða

Umfangsmeira mat:

Sérnámslæknir

Ber ábyrgð á eigin námi og er ábyrgur fyrir að öll skráning samkvæmt marklýsingu og ákvörðunartóli sé aðgengileg.

Ákvörðunartólið heldur utan um þau markmið sem sérnámslæknir þarf að ná fyrir viðunandi árlegan framgang. Skjalið er einnig til leiðbeiningar fyrir sérnámslækni og leiðbeinanda varðandi skipulag og fundarefni hverju sinni.

Hlutverk kennslustjóra

Hlutverk kennslustjóra er að samhæfa námsáætlun og kennslu. Kennslustjóri vinnur á vegum yfirlæknis sérnáms. Kennslustjóra ber að gæta, ásamt handleiðaraog sérnámslækni að framgangur verði samkvæmt áætlun. Í lok hvers ár er hlutur kennslustjóra og kennsluráðs að taka saman gögn sem undirbyggja framvindumat og meta hvort sérnámslæknirinn hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt ákvörðunartóli.

Hlutverk handleiðara

Handleiðari á að fylgja sérnámslækni í námsferlinu og gæta þess að framgangur sé í samræmi við áætlun og marklýsingu. Handleiðari og sérnámslæknir eiga að gera upp árangur námsins árlega.

Námskeið og námsþing

Æskilegt er að læknir í sérnámi sæki námskeið og þing eftir því sem unnt er. Sænska bæklunarlæknafélagið heldur fjölda viðurkenndra námskeiða í bæklunarskurðlækningum sem eru miðuð við lækna í sérnámi í bæklunarskurðlækningum. Sama á við í Noregi og Danmörku. Æskilegt er að sérnámslæknir getir sótt ATLS námskeið hérlendis og eitt stærra erlent þing.

Fræðileg þekking

Kennsla sérnámslækna fer fram síðasta miðvikudag í mánuði.

Fræðileg þekking byggir á lestri fagtímarita og fagbóka (sjá lista í Handbók) ásamt lestri í orthobullets. Gert er ráð fyrir því að tími sé fyrir lestur, ca. 2 klst. á viku. Sérnámslæknar fylgja námsáætlun í orthobullets og undirbúa sig vel undir tilfellafundi sem eru 1-2 svar í viku.

Verkleg kennsla er reglulega

  • sinasaumur á Keldum

  • gifskennsla á G3

  • farið yfir volarplötusett

  • farið yfir smábrotasett

  • endurgjöf á saumatækni

Sérfræðingspróf í bæklunarskurðlækningum

Sænska bæklunarlæknafélagið hefur haldið sérstök próf fyrir sérfræðinga frá árinu 1985, bæði skriflegt og munnlegt. Hægt er að þreyta prófið undir lok sérnámsins. Einnig má má taka próf á vegum EFORT sem byggja á Evrópskum reglum og eru á ensku. Árlega verður lagt fyrir sérnámslækna próf í bæklunarskurðlækningum að sænskri fyrirmynd.

Síðast uppfært: 9.2.2021/ósá