Fæðingarvakt veitir þjónustu við konur í eðlilegri fæðingu og konur með áhættuþætti eða heilsufarsvandamál sem krefjast sérhæfðs eftirlits.
Ljósmæður veita símaráðgjöf allan sólarhringinn fyrir konur eftir 22. viku meðgöngu.
Hafðu samband ef:
fæðing er talin hafin
legvatn er farið að renna
mikil blæðing kemur frá leggöngum
áhyggjur eru af minnkuðum fósturhreyfingum
Ef vandamál er brátt og meðgöngulengd hefur ekki náð 22 vikum
Fyrir 12-21 vikna meðgöngur
Ef veruleg blæðing verður, hafðu samband við:
Göngudeild mæðraverndar á dagvinnutíma: 543 3253
Meðgöngu- og sængurlegudeild utan dagvinnutíma: 543 3220
Minna en 12 vikur liðnar af meðgöngutíma
Bráðamóttöku kvenna á dagvinnutíma: 543 3266
Utan dagvinnutíma: 543-1000
Vandamál á meðgöngu sem ekki eru bráð skal beina til ljósmóður í mæðravernd eða Læknavakt 1700
Fæðing
Fæðing er viðkvæmt ferli og mæla ljósmæður og læknar fæðingarvaktar með því að aðeins einn stuðningsaðili sé viðstaddur fæðingu. Ólíkar þarfir fyrir stuðning í fæðingu eru samt hafðar í huga.
Konur sem þurfa á því að halda að hafa annan stuðningsaðila með sér í fæðingu, þurfa að ræða það þegar hringt er á deildina í aðdraganda fæðingar eða við komu á deildina.
Konur dvelja á fæðingarvaktinni meðan á fæðingu stendur og í um tvær klukkustundir eftir fæðinguna. Heimsóknir á þessum tíma eru ekki taldar æskilegar.
Eftir fæðingu er útskrift heim eða á meðgöngu- og sængurlegudeild.
Algengar spurningar og svör
Á ég að leita á fæðingarvaktina með fyrirspurnina mína? Ljósmæður og læknar sem sinna meðgönguvernd hraustra kvenna í heilsugæslu, þar með talið Læknavaktin (s.1770), sinna fyrirspurnum og helstu vandamálum sem upp koma á meðgöngu og vísa konum á kvennadeildir Landspítala ef þörf krefur.
Ljósmæður og læknar á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem sinna meðgönguvernd kvenna í áhættuhópum vísa konum á aðrar kvennadeildir eftir þörfum.
Ef þú hins vegar telur að fæðingin sé hafin, legvatnið sé farið að renna eða ef mikið blæðir frá leggöngum, þ.e. meira en sem nemur um 1-2 matskeiðum (15-30ml), skaltu hafa samband við okkur á fæðingarvaktinni ef meðgöngulengdin er orðin meira en 22 vikur (sjá einnig svar við spurningum um legvatnsleka og blæðingu frá leggöngum).
Síðustu vikur meðgöngunnar finna margar konur fyrir svokölluðum fyrirvaraverkjum. Fyrirvaraverkir eru óreglulegir samdrættir í legi með verkjum sem geta líkst túrverkjum. Þeir eru algengari á kvöldin og á nóttunni og geta staðið í nokkrar klukkustundir í senn en detta síðan niður.
Upphaf fæðingar, sem stundum er kallað forstig fæðingar, getur líkst fyrirvaraverkjum og einkennist af óreglulegum samdráttum í legi. Ef um fæðingu eru að ræða detta samdrættirnir hins vegar ekki niður með tímanum, heldur styrkjast og verða reglulegri eftir því sem líður á fæðinguna.
Virka stig fæðingarinnar einkennist af því að í stað óreglulegra og missterkra samdrátta koma reglulegar, sterkar hríðir á um 2-5 mínútna fresti.
Þér er óhætt að vera heima meðan þú treystir þér til en margar konur finna hjá sér þörf fyrir að hitta ljósmóður þegar líður á þetta tímabil fæðingarinnar.
Við mælum með því að hringja á fæðingarvaktina áður en lagt er af stað eða ef þú ert óviss um hvort það sé tímabært að koma.
Ef þú ert með ör á legi eftir fyrri keisaraskurð, háan blóðþrýsting, sykursýki, GBS í fæðingarvegi eða aðra áhættuþætti mælum við með því að þú komir á fæðingarvaktina um leið og virka stig fæðingarinnar hefst.
Bílstól fyrir heimferðina, sem búið er að læra að festa í bílinn
Föt, bleyjur og bossaþurrkur fyrir barnið
Slopp, þægileg föt og inniskó fyrir þig og maka eða stuðningsaðila
Snyrtidót, s.s. tannbursta, tannkrem og varasalva
Tónlist eða annað sem hjálpar ykkur að slaka á
Myndavél/sími
Nesti (fæðandi konur geta þó fengið létt snarl á deildinni)
Pening/greiðslukort/síma fyrir sjálfsala
Pening/greiðslukort í stöðumæli fyrir gjaldskyld stæði eða síma
Í fæðingu er gott að þú hafir með þér stuðningsaðila sem þú hefur valið sjálf. Í flestum tilvikum er maki konunnar stuðningsaðili hennar.
Þar sem fæðing er viðkvæmt ferli mæla ljósmæður og læknar fæðingarvaktar með því að einungis einn stuðningsaðili sé viðstaddur fæðinguna. Þó ber að hafa í huga að þarfir kvenna fyrir stuðning í fæðingu geta verið ólíkar.
Við biðjum konur sem þurfa á því að halda að hafa annan stuðningsaðila með sér í fæðingunni að ræða það þegar hringt er á deildina í aðdraganda fæðingar eða við komu á deildina.
Konur dvelja á fæðingarvaktinni meðan á fæðingu stendur og í um tvær klukkustundir eftir fæðinguna. Heimsóknir á þessum tíma eru ekki taldar æskilegar.
Eftir fæðingu útskrifast konan heim eða á meðgöngu- og sængurlegudeild en þar er heimsóknartími fyrir nánustu aðstandendur.
Í upphafi fæðingar, áður en komið er á fæðingarstað, er gott að nýta sér ýmsar lyfjalausar leiðir til verkjastillingar svo sem bað/sturtu, nudd eða heita og kalda bakstra.
Ef þörf er á frekari verkjastillingu í upphafi fæðingar er mælt með að hafa samband við fæðingarvaktina.
Fæðingarvaktin sinnir öllum konum sem til hennar leita, bæði hraustum konum og konum með áhættuþætti eða heilsufarsvandamál.
Samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis um val á fæðingarstað er konum með áhættuþætti eða heilsufarsvandamál ráðlagt að fæða þar sem er aðgengi að ýmiss konar sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, líkt og er í boði á fæðingarvaktinni.
Hægt er að mæla með öðrum valkostum fyrir hraustar konur án áhættuþátta, til dæmis fæðingardeildum sjúkrahúsanna á Akranesi, Selfossi eða Keflavík, eða þjónustu ljósmæðra við heimafæðingar eða á fæðingarstofu/fæðingarheimili.
Flestar fæðingar byrja með hríðum en tæplega 10% þeirra byrja með því að legvatnið fer að renna. Legvatnsleki getur ýmist byrjað með stórri gusu eða smærri gusum.
Þar sem margar konur upplifa mikla og þunnfljótandi útferð frá leggöngum og jafnvel þvagleka á síðustu vikum meðgöngunnar getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort um legvatnsleka sé að ræða ef vökvagusan er lítil.
Legvatn hefur sætkennda lykt sem getur hjálpað til við að greina það frá útferð eða þvagi.
Það sem að auki einkennir legvatnsleka er að yfirleitt er ekki um staka gusu að ræða heldur halda áfram að koma gusur þangað til barnið fæðist, t.d. þegar þú eða barnið hreyfið ykkur.
Ef um litla, staka gusu er að ræða, vökvinn lyktar af þvagi eða útferð og þú þarft ekki að hafa bindi við þig til að taka við vökvanum er ólíklegt að um legvatnsleka sé að ræða.
Á meðgöngutímanum myndast þykkt slím í leghálsopinu sem stundum er kallað slímtappi.
Þetta slím getur losnað á síðustu dögum eða vikum meðgöngunnar þegar leghálsinn byrjar að mýkjast, styttast og jafnvel opnast. Sumar konur verða varar við þennan slímtappa í formi þykkrar útferðar frá leggöngum sem getur ýmist verið ljós eða blóðlituð.
Þótt kona verði vör við slíka útferð þarf það ekki að þýða að fæðing sé yfirvofandi og enn geta verið margir dagar eða jafnvel vikur þar til fæðing fer af stað.
Ef mikið blæðir frá leggöngum, þ.e. meira en sem nemur um 1-2 matskeiðum (15-30ml), skaltu hafa samband við okkur á fæðingarvaktinni ef meðgöngulengdin er orðin meira en 22 vikur.
Betra er að hafa samband við:
Göngudeild mæðraverndar á dagvinnutíma (s. 543 3253) ef veruleg blæðing verður við 12-21 vikna meðgöngu.
Meðgöngu- og sængurlegudeild utan dagvinnutíma (s. 543 3220) ef veruleg blæðing verður við 12-21 vikna meðgöngu
Bráðamóttöku kvenna (s.543 3266) þegar minna en 12 vikur eru liðnar af meðgöngunni
Algengara er að blæðing frá leggöngum á meðgöngu sé lítil blettablæðing eða blóðlitað slím í buxum eða salernispappír og getur hún ýmist verið rauðleit, bleikleit eða brúnleit. Slík smáblæðing getur til dæmis komið fram eftir samfarir eða ef kona þjáist af hægðatregðu.
Æskilegt er að bera slíka smáblæðingu undir ljósmóður eða lækni í meðgönguvernd konunnar.
Einnig getur smáblæðing komið fram í upphafi fæðingar.
Lengd eðlilegrar meðgöngu getur verið allt frá 37 að 42 vikum.
Áætlaður fæðingardagur samkvæmt síðustu blæðingum eða ómskoðun er miðaður við 40 vikna meðgöngu og getur því verið von á fæðingunni í allt að þrjár vikur fyrir áætlaðan dag og í allt að tvær vikur eftir hann.
Almennt er talið öruggast að fæðing fari af stað af sjálfu sér og ekki er mælt með að fæðing hjá hraustum konum með enga áhættuþætti sé gangsett fyrr en meðgangan nálgast eða hefur náð 42 vikum.
Ef kona velur að bíða með eða afþakka gangsetningu er mælt með að fylgjast vel með heilsu og líðan móður og barns.
Hjá konum með áhættuþætti er metið eftir aðstæðum hvort og hvenær ráðlagt er að hefja fæðingu með gangsetningu.
Fjölskyldan dvelur á fæðingarvaktinni í um tvær klukkustundir eftir fæðingu barnsins.
Fylgjan fæðist og athugað er hvort þarf að sauma spangarsvæði.
Barnið fer yfirleitt á brjóst, er vigtað, mælt og skoðað af ljósmóður, og foreldrum er boðin k-vítamínsprauta fyrir barnið.
Leitast er við að aðskilja ekki móður og barn á þessum mikilvæga og viðkvæma aðlögunartíma.
Að þessum tíma loknum flyst fjölskyldan gjarnan á meðgöngu- og sængurlegudeild þar sem hún dvelur í 4-72 klukkustundir eftir aðstæðum.
Að lokinni útskriftarskoðun barnalæknis geta flestar fjölskyldur útskrifast í heimaþjónustu hjá ljósmóður sem sinnir fjölskyldunni fyrstu dagana eftir fæðingu.
Ef fæðingin hefur gengið vel er hægt að útskrifast beint af fæðingarvaktinni í heimaþjónustu ljósmæðra en þá er mælt með því að fjölskyldan dveljist á deildinni í fjórar klukkustundir og að barnið sé skoðað af barnalækni fyrir heimferð.