Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Fyrsta hjálp við eitrun

Meðal helstu hlutverka Eitrunarmiðstöðvar er að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða.

Hringið í Eitrunarmiðstöð í síma 543 2222 hvenær sem er til að fá aðstoð.

Inntaka

  • Þynning ráðlögð við inntöku á ertandi efnum (sápur, hreinsiefni, súr eða basísk efni). Gefið 1-2 glös af vatni eða mjólk ef alvarleg einkenni eru ekki til staðar. Aldrei þröngva vökva ofan í fólk.

  • Leitið læknishjálpar strax ef alvarleg einkenni eins og verkur í vélinda eða maga, kyngingarörðugleikar eða öndunarerfiðleikar eru til staðar.

  • Lyf: Þynning getur aukið eituráhrif lyfja. Ekki drekka eða borða eftir inntöku lyfja nema í samráði við lækni.

Uppköst

  • Ekki framkalla uppköst í heimahúsi nema í samráði við eitrunarmiðstöð eða lækni.

  • Gætið að líkamsstöðu sjúklings, forðist að hann liggi á bakinu.

Augu

  • Skolið strax með þægilega volgu vatni í 15 mínútur. Ef efnið er sterkt (sýrur/basar), skolið lengur.

Innöndun

  • Komið sjúklingi í ferskt loft, losið um þröng föt.

  • Forðist lokuð rými með hættulegum lofttegundum nema með viðeigandi hlífðarbúnaði.

Húð

  • Skolið með miklu vatni og mildri sápu. Fjarlægið föt og skartgripi.

Dæmi um hættuleg efni
  • Inntaka: Sýrur, basar, hreinsiefni.

  • Innöndun: Klórgas, ammoníak, kolmónoxíð, brennisteinsvetni, lífræn leysiefni.

  • Húð: Sýrur, basar, ertandi hreinsiefni.

Fimm góð ráð

  • Geymdu hættuleg efni alltaf í upprunalegum umbúðum með varnaðarmerkingum og upplýsingum um innihald.

  • Fylgdu leiðbeiningum á merkimiðanum.

  • Varastu að hættuleg efni komist í snertingu við húð, augu eða lungu.

  • Geymdu hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til.

  • Hugsaðu um umhverfið áður en þú fargar hættumerktum vörum.

Gott er að fara í gegnum öll herbergi á heimilinu og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd

Myndir og skýringar af algengum eiturefnismerkjum

Bráð eituráhrif

Efni sem eru eitruð og geta valdið skaða eða verið banvæn við inntöku, innöndun eða eftir snertingu við húð.

  • Klæðist hlífðarbúnaði.

  • Forðist inntöku, innöndun og snertingu við húð og augu.

Geymist á læstum stað: Varnarefni, metanól og níkótínáfylling fyrir rafrettur.

Alvarlegur heilsuskaði

Efni sem geta valdið langvarandi áhrifum og heilsuskaða, skaðað frjósemi eða ófætt barn, verið krabbameinsvaldandi, valdið ofnæmi eða astmaeinkennum og skaðað líffæri.

  • Meðhöndlið varlega.

  • Forðist inntöku og innöndun.

  • Forðist snertingu við húð og augu.

Geymist á læstum stað: Terpentína, bensín, málningarþynnir, epoxý og lampaolía.

Ætandi efni

Efni sem eru ætandi fyrir húð og valda alvarlegum augnskaða. Á einnig við um efni sem tæra málma.

  • Haldið í upprunalegu íláti.

  • Forðist inntöku og innöndun.

  • Klæðist hlífðarbúnaði.

Dæmi: Stíflueyðar, grillhreinsar salernishreinsir, sýrur, basar, ediksýra, saltsýra, og ammoníak.