Eitrunarmiðstöð
Fræðsluefni
Fræðsluefni og leiðbeiningar
Eitranir vegna eitraðra lofttegunda eru talsvert algengar. Þær eru mjög lúmskar og stundum getur verið erfitt að átta sig á að um eitur í lofti er að ræða. Sterk vísbending um að svo sé er ef fleiri en einn eða margir á sama svæði eru með sömu einkenni.
Kolmónoxíð
Kolmónoxíð er eitruð lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis, til dæmis frá:
Bílum
Öðrum ökutækjum
Hitatækjum
Grillum o.fl.
Mjög mikilvægt er að nota ekki gaskyndingu innanhúss nema það sé tryggt að gott útblásturskerfi sé til staðar. Annars má alls ekki sofa með slík tæki eða nota þau lengi í lokuðu herbergi eða í tjaldi.
Fyrstu einkenni
Fyrstu einkenni eitrunar líkjast flensu og eru til dæmis:
Höfuðverkur
Ógleði
Uppköst
Máttleysi
Drungi
Yfirlið
Einbeitingarerfiðleikar.
Ef ekkert er að gert leiðir eitrunin til dauða.
Ef margir eru samankomnir, t.d. heil fjölskylda í sumarbústað, tjaldi eða annars staðar þar sem notuð er gaskynding og allir hafa ofangreind einkenni er mjög líklegt að um kolmónoxíð eitrun sé að ræða.
Gaseitrun getur orðið ef gas lekur út í miklu magni í lokuðu rými og byggist á því að gasið rekur í burtu súrefnið úr loftinu og menn verða fyrir súrefnisskorti.
Kolmónoxíð er hins vegar litlaus og lyktarlaus lofttegund sem myndast við bruna, binst blóðfrumum líkamans og kemur í veg fyrir að nægjanlegt súrefni berist til líffæra.
Báðar þessar eitranir geta valdið dauða.
Kolmónoxíð er þó mun líklegra til að valda alvarlegum eitrunum þar sem mun minna þarf af því en gasinu og erfiðara er að greina hvort það er til staðar.
Kolmónoxíð myndast við allan bruna en ef súrefnisflæði er nægjanlegt verður styrkur þess ekki það mikill að skaði hljótist af.
Þannig á að forðast kolmónoxíðeitrun
Algengast er að fólk verði fyrir kolmónoxíð eitrun þegar verið er að nota tæki innan dyra sem brenna gasi eða olíu.
Gæta þarf að því að loftræsting sé í lagi við notkun á:
Gashiturum
Olíuhiturum
Arinofnum
Gaseldavélum
Gasgrillum
Kolagrillum o.s.frv.
Gasgrill og kolagrill má að sjálfsögðu aldrei nota í lokuðu rými og gæta þarf þess að tæki sem ætluð eru til notkunar innan dyra séu rétt tengd og sett upp þannig að loftræsting eða útblástur sé tryggður.
Einnig er rétt að minna á að láta aldrei bíla, mótorhjól, báta eða önnur farartæki í gang innan dyra.
Klórgas er eitruð lofttegund sem myndast þegar klór og sýra blandast saman.
Hversu mikið gas myndast fer eftir magni efnanna.
Til dæmis má nefna að blöndun efna sem algeng eru á heimilum, þ.e. bleikiklórs og salernishreinsiefna, getur leyst þessa eitruðu lofttegund úr læðingi og valdið þeim sem vinnur með efnin óþægindum.
Þó er lítil hætta á að alvarleg eitrun hljótist af í svona tilfellum nema verið sé að vinna með óvenju mikið af efnunum eða í lengri tíma.
Hætta á eitrun
Hætta á eitrun er einkum við innöndun eða beina snertingu við gufurnar.
Eitrunareinkenni koma fljótt í ljós og eru:
Sviði í augum og tárarennsli
Sviði í nefi, hálsi og munni
Hósti og öndunarerfiðleikar
Í alvarlegum tilfellum getur efnið valdið lungnabjúg
Ef fólk andar að sér klórgasi er mikilvægt að fara út í ferskt loft sem allra fyrst og ef framangreind einkenni koma fram skal leita læknis eða hringja í eitrunarmiðstöðina og leita ráða.
Piparúði inniheldur alkalóíðan capsacain og fleiri skylda alkalóíða sem eru mjög ertandi fyrir augu, húð og öndunarfæri.
Efnið er einnig oft kallað OC sem stendur fyrir Oleoresin capsicum.
Verkunarmáti
Örvun skyntaugafruma og losun á “substance P” sem veldur æðavíkkun, losun á histamíni og næmara sársaukaskyni (nociception).
Einkenni
Koma fljótt en vara yfirleitt stutt, 20 – 30 mín., en geta varað dögum saman.Astmasjúklingar og aðrir með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma eru viðkvæmari.
Augu
Sviði
Roði
Táraflóð
Skemmdir á corneu eru hugsanlegar
Húð
Roði
Stingir og brunatilfinning
Útbrot og blöðrur ef langvarandi snerting
Innöndun
Hósti
Nefrennsli
Hnerri
Mæði
Andþrengsli
Síðkominn lungnabjúgur hugsanlegur (mjög sjalgæft)
Inntaka
Brunatilfinning í munni
Ógleði
Uppköst
Niðurgangur
Meðferð
Byggist á að hreinsa efnið í burtu og draga úr sársauka. Nota vatn og sápu ( er olíukennt) fyrir húð en saltvatn fyrir augu.
Fylgjast með öndunarfæraeinkennum, gefa súrefni og berkjuvíkkandi innúðalyf eftir þörfum, röntgenmynd af lungum og mæla blóðgös ef áframhaldandi einkenni. Einkennameðferð eftir þörfum.
Nota hlífðarfatnað við umönnun sjúklingsins vegna mengunarhættu og setja menguð föt í plastpoka og loka vel.
Mengunarhætta er aðallega við beina snertingu en ekki innöndun.
Ráð sem hafa gefist vel
EMLA krem hefur verið notað með góðum árangri á húðsvæði vegna mikils sviða
Jurtaolíur draga úr sviða og óþægindum lengur en kalt vatn
Magamixtúrur sem innihalda magnesium og aluminium hydroxíð draga úr sviða í húðinni
Táragas
Þetta geta verið ýmis efni svo sem CS og CN.
Lögreglan hér á þessi efni, en notar þau mun sjaldnar en piparúðann.
CS og CN fafa öflugri ertandi áhrif en piparúðinn.
Einkennin líða þó fljótt hjá þegar fólk kemst burt úr menguninni.
Meðferðin er sú sama og vegna piparúða en mengunarhætta við ummönnun sjúklingsins er mun meiri.
Skipta má plöntum gróflega í tvo flokka hvað varðar eituráhrif þeirra á menn.
Annars vegar eru plöntur sem í eru eiturefni sem geta haft áhrif á miðtaugakerfið og/eða hjartað
Hins vegar plöntur sem í er safi sem er sérstaklega ertandi fyrir slímhimnur, augu og húðina
Pottablóm
Þegar nýjar pottaplöntur eru keyptar er rétt að athuga hvort þær geti verið eitraðar, flestar blómabúðir geta gefið upplýsingar um það.
Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá eitrunarmiðstöðinni.
Dæmi um eitraðar pottaplöntur: Jólastjarna ( Euphorbia pulcherrima ) og Köllubróðir ( Dieffenbachia) .
Garðurinn
Í garðinum geta leynst eitraðar plöntur, mikilvægt er að brýna fyrir börnum að stinga ekki upp í sig blómum, laufblöðum, berjum eða sveppum í garðinum.
Dæmi um eitraðar plöntur í görðum: Töfratré eða töfrarunni ( Daphne mezereum) – mikið eitruð og Gullregn (Laburnum) .
