Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Fyrir börn og unglinga á leið í fyrsta viðtal

Velkomin á göngudeild barna- og unglingageðdeildar.

Hér munum við reyna að svara þeim spurningum sem þú gætir haft um það hvað gerist hérna hjá okkur á göngudeild barna- og unglingageðdeildar.

Aðeins um barna- og unglingageðdeild

  • Barna- og unglingageðdeild er önnur af tveimur barnadeildum Landspítalans, hin er Barnaspítali Hringsins

  • Á barna- og unglingageðdeild hittum við börn og unglinga sem eiga við andlega erfiðleika að stríða á meðan börn sem eiga við líkamlega erfiðleika að stríða fara á barnaspítalann

  • Dæmi um meðferð við líkamlegum vanda eru hækjur, sárabindi eða skurðaðgerð en á barna- og unglingageðdeild notum við aðallega spurningar, samtöl og stundum lyf

  • Ástæður fyrir því að barni/unglingi er vísað á göngudeild barna- og unglingageðdeilar eru margar og mismunandi

  • Stundum koma krakkar sem líður illa og finna fyrir kvíða og dapurleika og stundum gengur krökkum illa með samskipti heima og í skólanum

  • Þetta eru dæmi um það sem við erum vön að vinna með á göngudeild barna- og unglingageðdeildar.

Fyrsta viðtal á göngudeild barna- og unglingageðdeildar

Góð samvinna milli þín, foreldra þinna og okkar skiptir miklu máli. Þegar þú kemur í fyrsta viðtal eiga foreldrar þínir alltaf að koma með, helst báðir en allavega það foreldri sem þú býrð hjá. Það er til þess að við fáum að kynnast ykkur og heyra í öllum með hver vandinn er og hvernig hægt er að aðstoða ykkur.

Yfirleitt tekur fyrsta viðtal um eina til eina og hálfa klukkustund og þið hittið alltaf málastjórann sem mun verða ykkar helsti tengiliður á barna- og unglingageðdeild og verður sá sem þið hringið í ef ykkur vantar upplýsingar eða þurfið að ræða eitthvað sem varðar meðferðina á barna- og unglingageðdeild.

  • Við byrjum yfirleitt fyrsta viðtalið á að allir setjast niður saman og spjalla í stutta stund. Svo þegar allir eru búnir að kynnast er vaninn að barnið/unglingurinn sitji eftir með málastjóranum og spjalli við hann í einrúmi.

  • Svo fer barnið/unglingurinn fram og bíður í smá stund á meðan foreldrar koma í viðtal við málastjórann. Þá er yfirleitt verið að fara yfir upplýsingar varðandi t.d. meðgöngu, fæðingu, hvenær þú fórst að ganga, tala, borða og ýmislegt í þeim dúr.

  • Viðtalinu lýkur með því að allir hittast aftur saman og farið er yfir næstu skref áður en farið er heim.

Næstu skref

Eftir viðtalið fer málastjórinn yfir þau gögn sem hafa komið með tilvísuninni á barna- og unglingageðdeild, til dæmis sálfræðiskýrslur og lista sem foreldrar og skóli hafa fyllt út ásamt listum sem þú hefur fyllt út í viðtalinu við málastjórann. Svo eru næstu skref ákveðin.

  • Oft er gefinn tími hjá lækni teymisins sem þú tilheyrir eða þú færð tíma í einstaklingsviðtöl, eftir því hvað hentar þér. Viðtölin taka yfirleitt klukkustund.

  • Á barna- og unglingageðdeild eru einnig í boði margar og mismunandi hópmeðferðir eftir því með hvaða vanda er verið að vinna.

  • Oftast er svo haldinn upplýsingafundur með foreldrum þínum og starfsfólki skólans sem hefur verið að styðja þig, svo fram komi hvað þeim finnst vera að og einnig til að fá samvinnu um hvað væri hægt að gera öðruvísi.

Hversu mikið við gerum á barna- og unglingageðdeild fer eftir eðli vandans sem þú ert að glíma við. Stundum er þörf á að leggja börn/unglinga inn á legudeild en vanalega ekki í fyrsta viðtali.

Útskriftin

Þegar þér fer að líða og ganga betur þá metum við málið aftur og ákveðum útskrift af deildinni.

Tímalengdin í þjónustunni hjá okkur á barna- og unglingageðdeild er mjög misjöfn, allt frá nokkrum vikum eða mánuðum upp í nokkur ár. Í sumum tilvikum höldum við samvinnunni til 18 ára aldurs og styðum viðkomandi í viðeigandi heilbrigðis- og eða félagsþjónustu annars staðar.

Ef þú hefur einhverjar spurningar, endilega skrifaðu þær niður eða reyndu að muna þær og spyrja svo þegar þú kemur í fyrsta viðtalið til okkar.

Vonandi mun okkur ganga vel að vinna saman.

Við sjáumst þegar þú kemur í fyrsta viðtalið.