Þjónusta við skjólstæðinga
Fyrir hverja
Barna- og unglingageðdeild Landspítala veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri með samsettan geðrænan vanda margvíslega sérfræðiþjónustu.
Fólkið sem sinnir þjónustunni
Á barna- og unglingageðdeild starfar fólk úr mörgum fagstéttum; læknar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, listmeðferðarfræðingar, sjúkraliðar og heilbrigðis- og læknaritarar. Á legudeild starfa að auki ráðgjafar með fjölbreytta menntun og reynslu.
Innan bráðaþjónusta barna- og unglingageðdeildar Landspítala er sérhæft bráðateymi og hlutverk þess er að meta alvarleika bráðs geðræns vanda barns, svo sem sjálfsvígshættu, geðrofseinkenni, einkenni geðhvarfa og/eða brátt alvarlegt þunglyndi.
Starfsemin
Á barna- og unglingageðdeild eru göngu-, dag- og legudeild. Á deildunum er unnið í þverfaglegum teymum að greiningu og meðferð, og einnig er veitt ráðgjöf og fræðsla. Þjónustan tekur mið af þörfum barna og fjölskyldum þeirra.
Langflestir fá þjónustu á göngudeild eingöngu. Innlagnir á legudeild barna og unglinga eru nýttar þegar þörf er fyrir sérhæfða athugun og/eða meðferð umfram það sem hægt er að veita í göngudeild.
Þegar barn/unglingur kemur til meðferðar á göngudeild er byrjað á að skilgreina vandann. Unnin er ítarleg greiningarvinna og að henni lokinni er boðið upp á meðferðarúrræði við hæfi.
Greiningar- og meðferðarteymi sem tilheyra göngudeild barna- og unglingageðdeildar:
Ennfremur er höfð samvinna við fjölskyldu, tilvísanda og þá aðila sem tengjast barni í nærumhverfi, svo sem félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla eða barnavernd um viðeigandi stuðning.
Meðferð á göngudeild er margs konar. Má þar nefna stuðnings- og meðferðarviðtöl við barnið/unglinginn, foreldra og fjölskyldu. Að auki eru í boði námskeið, hópmeðferð, listmeðferð, iðjuþálfun, lyfjameðferð, vettvangsþjónusta og fleira. Fjölskylduvinna er samofin allri meðferð á BUGL en hægt er að vísa í sérhæfðari fjölskyldumeðferð ef þess er talin þörf.
Meðferðin byggist á að kortleggja og greina sálfélagslegan samskiptavanda sem oft er tengdur geð- og hegðunarröskunum og styðja fjölskylduna í að þekkja og nýta þá styrkleika sem hún býr yfir.
Nánari upplýsingar um göngudeild BUGL í bæklingi:
Legudeildin er ætluð börnum að 18 ára aldri. Þar geta að hámarki dvalið 17 börn, daglangt eða allan sólarhringinn. Meirihluti innlagðra barna dvelur á deildinni frá klukkan 8 til 15 á virkum dögum en er heima um helgar.
Deildin er skilgreind sem bráðadeild og er opin allan sólarhringinn, allt árið um kring.
Á legudeild barna og unglinga er áherslan lögð á sérhæfða athugun á líðan og hegðun barns og þá umhverfismeðferð sem aðeins er hægt að veita á lokaðri deild.
Við innlögn er gerð einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun fyrir sérhvert barn sem endurskoðuð er reglulega.
Meðan barnið dvelur á deildinni er lögð áhersla á virka þátttöku foreldra.
Skólasókn
Meðan á innlögn stendur sækja börn á skólaskyldualdri annað hvort sinn heimaskóla eða stunda nám í Brúarskóla sem staðsettur er á lóð barna- og unglingageðdeildar. Mikil og góð samvinna er höfð við skólann um kennslu og mat á náms- og skólastöðu viðkomandi barns.
Brúarskóli
Á lóð barna- og unglingageðdeildar stendur Brúarskóli við Dalbraut sem heyrir undir Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur sem eiga við geðræna erfiðleika að etja og eru innlagðir á barna- og unglingageðdeild.
Meginmarkmið kennslunnar er að styðja nemendur í námi, hún er einstaklingsmiðuð og sérhæfð fyrir hvern nemanda í samræmi við námslega stöðu hans, áhuga og getu. Í flestum tilfellum er um samkennslu að ræða í fámennum hópum.
Við útskrift fylgir ráðgjafasvið Brúarskóla nemendum eftir og veitir starfsfólki í heimaskóla aðstoð og fræðslu eftir þörfum.
Skólinn starfar á þeim tíma árs sem kennsla fer fram í almennum skólum.
Nánari upplýsingar um Brúarskóla er að finna á vefsíðu skólans www.bruarskoli.is.
Nánar um starfsemi barna- og unglingageðdeildar í eftirfarandi bæklingi:
Þjónusta við fagaðila
Mikil samvinna er við þá aðila sem sinna frumgreiningu svo sem heilsugæslu og félagsþjónustu auk annarra fagaðila sem sinna barni og fjölskyldu í nærumhverfi. Áhersla er lögð á alúð í samskiptum og gott samstarf við foreldra/forráðamenn.
Almenn símaráðgjöf vegna veikinda barna er veitt á Heilsugæslustöðvum og í síma 1700 allan sólarhringinn.
Vísun í þjónustu Barna og unglingageðdeildar
Ef grunur er um geðrænan vanda hjá barni eða unglingi byrja foreldrar oft á því að leita til fagfólks í nærumhverfi sínu, eins og á heilsugæslu, félagsþjónustu eða sálfræðiþjónustu skóla, sem geta vísað í þjónustuna.
Ábendingar og kvartanir
Ef foreldrar/forráðamenn eru með ábendingar eða kvartanir í tengslum við meðferð eða þjónustu barns er hægt að hafa samband við þjónustustjóra, deildarstjóra og yfirlækni í síma 543 4300 á göngudeild barna- og unglingageddeildar.