Væg aukning á COVID-19 tilfellum og inflúensa greinist áfram
30. júní 2025
Tíðni bráðra öndunarfærasýkinga undanfarið er almennt svipuð og á sama árstíma í fyrra, sem er einnig sambærilegt við árin fyrir COVID-19 heimsfaraldur (2017–2019).

Sýnatökur eru hins vegar talsvert fleiri eftir faraldurinn miðað við það sem áður var. Tíðni öndunarfærasýkinga er einnig almennt lág í öðrum ríkjum á ESB/EES svæði.
COVID-19
Hérlendis hefur orðið vart við væga aukningu undanfarið á greiningum COVID-19 frá rannsóknarstofum. Í seinni hluta maí sl. (viku 20–21) var aukning á greiningum tengt hópsýkingu á Landspítala. Í viku 23–24 greindust aftur aðeins fleiri en í viku 25 (16.–22 . júní) greindust svo 28 einstaklingar (tafla). Smittölur eru samt lágar miðað við það sem var í faraldrinum og sýnir að ónæmi gegn alvarlegum veikindum er enn útbreitt í samfélaginu. Svipað mynstur hefur sést í nokkrum ríkjum Evrópu án merkjanlegra áhrifa á heilbrigðisþjónustu.
Tæplega helmingur þeirra sem greindust í viku 25 voru inniliggjandi á Landspítala og flestir sem greindust utan Landspítala voru að sögn lækna með væg eða lítil einkenni.

Mynstrið nú minnir á sumarið í fyrra 2024 þegar smitbylgja byrjaði um vorið og náði hámarki í júlí. Þá urðu flest smit í viku 28 (8.–14. júlí) þegar 70 einstaklingar greindust (mynd). Hugsanlegt er að sambærileg bylgja sé í uppsiglingu nú.
Inflúensa
Inflúensa heldur áfram að greinast um þessar mundir. Í fyrri hluta apríl, þegar árlegur inflúensufaraldur var á niðurleið, greindust um 20 tilfelli á viku á rannsóknarstofu Landspítala en frá miðjum apríl hafa greinst á bilinu 4–9 tilfelli á viku (tafla).
Undanfarið hefur mest borið á greiningum hjá inniliggjandi sjúklingum og einhverju starfsfólki á Landspítala en einnig hafa greinst einstaklingar utan höfuðborgarsvæðis. Fimmtán tilfelli hafa nú þegar greinst í viku 26 en líklegt er að einhverjar niðurstöður eigi eftir að skila sér.
Þetta eru fá tilfelli miðað við á flensutímanum en það er óvenjulegt að greiningar á inflúensu haldi áfram yfir sumarmánuðina hérlendis.

Almennar sóttvarnir
Ekki er ástæða til að grípa til sértækra aðgerða en við minnum á almennar sóttvarnir:
Þvo hendur oft og vel.
Hylja munn og nef við hósta og hnerra.
Takmarka umgengni við þá sem eru með einkenni sýkingar.
Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.
Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.
Íhuga notkun andlitsgrímu í fjölmenni eða í nánd við viðkvæma ef þú ert með einkenni sýkingar.
Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.
Sóttvarnalæknir