Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Greiningar á COVID-19

12. júní 2025

Seinni part maí varð vart við væga aukningu á COVID-19 greiningum hérlendis. Í viku 20 (12.–18. maí) greindust 14 einstaklingar. Í viku 21 greindust 24 einstaklingar. Frá áramótum og þar til nú höfðu ekki fleiri en 10 einstaklingar greinst á einni viku.

Hér er um að ræða greiningar með PCR prófi á veirufræðideildum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), sem eru fyrst og fremst frá bráðamóttökum spítalanna og inniliggjandi sjúklingum en minna frá heilsugæslu.

Mynstrið nú minnir á vorið 2024 sem var upphaf smitbylgju í júlí og ágúst síðastliðnum. Þá urðu flest smit í viku 28 (8.–14. júlí) þegar 70 einstaklingar greindust (mynd 1). Of snemmt er þó að segja til um hvort sambærileg bylgja er í uppsiglingu en það er hugsanlegt.

Nýjustu gögn frá Sóttvarnastofnun Evrópu benda ekki til aukningar á COVID-19 í ríkjum ESB/EES.

Innlagnir á Landspítala

Þar sem flest sýni sem send eru í COVID-19 rannsókn eru tekin á sjúkrahúsum (bráðamóttöku, legudeildum) þá helst fjöldi greininga í hendur við fjölda inniliggjandi á spítala með COVID-19. Gögn frá Landspítala sýna að inniliggjandi einstaklingum með COVID-19 greiningu fjölgaði seinnipart maí í samræmi við ofangreint. Flestir þessara einstaklinga tilheyrðu hópsýkingu á spítalanum meðal sjúklinga og starfsfólks. Sú hópsýking er nú gengin yfir, lítið bar á alvarlegum veikindum, jafnvel meðal aldraðra einstaklinga.

Mynd. Fjöldi einstaklinga inniliggjandi á LSH með COVID-19 2024 og 2025 eftir vikum

Vöktun smita í samfélaginu

Sóttvarnalækni bárust einnig ábendingar um hugsanleg COVID-19 veikindi víðar í samfélaginu þar sem einstaklingar töldu sig vera með COVID-19. Mikilvægt er að læknar skrái sjúkdómsgreiningar á COVID-19 í sjúkraskrá, sérstaklega ef greining er ekki staðfest með PCR rannsókn til að sóttvarnalæknir geti vaktað fjölda tilfella og þannig fylgst með þróun smita. PCR greiningar frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og SAk berast beint til sóttvarnalæknis.

Bólusetningar gegn COVID-19

Bólusetning síðastliðinn vetur bauðst svipuðum hópum og haustin 2022 og 2023. Bóluefni er til í landinu og læknar geta ráðlagt skjólstæðingum, sem þeir telja í sérstakri áhættu, að óska eftir bólusetningu á heilsugæslu ef smitbylgja virðist í gangi jafnvel þótt hún sé bundin við afmarkað svæði og nái ekki að slá út í eftirliti sóttvarnalæknis. Líklegt er að markhópar bólusetninga þrengist nokkuð þegar nýjar leiðbeiningar sóttvarnalæknis verða birtar síðar í sumar:

  • Aldursviðmið almennrar ráðleggingar hækki úr sextugu í áttrætt.

  • Skilgreining áhættu byggt á undirliggjandi heilsufarsvandamálum þrengd verulega.

Hætta á innlögn vegna COVID-19 nú, 5 árum eftir að COVID-19 komst fyrst á kreik hér á landi, virðist að mati smitsjúkdómalækna Landspítala helst eiga við einstaklinga með beinmergsbælingu (vegna sjúkdóms eða beinmergseyðandi krabbameinsmeðferðar) eða aðra mjög mikla ónæmisbælingu, svo sem í kjölfar líffæraígræðslu eða við meðferð með B-frumu eyðandi lyfinu rituximab sem stöðvar alla mótefnaframleiðslu.

Sóttvarnalæknir undirbýr nú nánari athugun á því hvaða undirliggjandi greiningar ættu áfram að teljast til áhættuþátta með tilliti til COVID-19.

Sóttvarnalæknir