Norræn vöktun á mataræði, hreyfingu, holdafari og áfengis- og tóbaksnotkun
2. desember 2025
Í dag kom út skýrsla með niðurstöðum norrænnar vöktunar á mataræði, hreyfingu og holdafari meðal fullorðinna og 7-12 ára barna, auk áfengis og tóbaksnotkunar fullorðinna.

Embætti landlæknis stóð fyrir könnuninni hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð vorið 2024 en verkefnið var fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni. Fyrri kannanir fóru fram 2014 og 2011. Hér eru birtar helstu niðurstöður en ítarlegri upplýsingar má nálgast í samantekt.
Mataræði
Mataræði á Norðurlöndunum hefur þróast til verri vegar síðan 2014, með minni neyslu á afurðum úr jurtaríkinu og meiri neyslu á sælgæti, kökum, kexi, gos- og orkudrykkjum. Neysla á ávöxtum, grænmeti, belgjurtum, heilkornabrauði og fiski árið 2024 var lítil miðað við það sem Norrænar næringarráðleggingar (NNR2023) mæla með, á meðan kjötneysla var tiltölulega mikil. Eins og áður var félagslegur ójöfnuður til staðar í mataræði þar sem hollara mataræði var algengara meðal einstaklinga með meiri menntun.
Á Íslandi dró úr neyslu á grænmeti, ávöxtum og heilkornabrauði meðal fullorðinna en neysla þessara fæðutegunda var minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Fiskneysla var þó meiri en norræna meðaltalið og fylgdi Ísland þar fast á eftir Noregi. Neysla á sælgæti, kökum og kexi hér á landi var með því mesta og sömuleiðis var langmest drukkið af gos- og orkudrykkjum á Íslandi.
Svipuð þróun var í mataræði barna. Grænmetis- og ávaxtaneysla minnkaði og var minni á Íslandi og í Noregi en á hinum Norðurlöndunum. Sömuleiðis minnkaði neysla á heilkornabrauði og var lítil á Íslandi. Í heildina dró lítillega úr fiskneyslu barna á Íslandi en íslensk börn borða þó enn meiri fisk en börn á hinum Norðurlöndunum. Neysla á sælgæti, kexi og kökum jókst hjá börnum ásamt neyslu á gosdrykkjum sem var 3,1 skipti/viku á Íslandi.
Hreyfing
Í heild uppfyllti tæpur þriðjungur fullorðinna Íslendinga ekki ráðleggingar um hreyfingu (150 mínútur af rösklegri hreyfingu á viku). Árið 2024 var í fyrsta sinn spurt um virkan ferðamáta og er talsverður munur á milli landa. Íslendingar vörðu minnstum tíma í göngu og að hjóla á milli staða í samanburði við hin Norðurlöndin, eða um tveimur klukkustundum á viku. Skjátími fullorðinna á Íslandi er að meðaltali 3,6 klukkustundir á dag en 23% landsmanna verja meira en 4 klukkustundum á dag fyrir framan skjá.
Þrátt fyrir að íslensk börn hreyfi sig mest í samanburði við hin Norðurlöndin nær stór hluti þeirra ekki lágmarksráðleggingum um daglega hreyfingu. Hlutfallslega fleiri stúlkur en drengir ná ekki lágmarksráðleggingum um daglega hreyfingu.
Holdafar
Fleiri fullorðnir voru í ofþyngd eða offitu (BMI ≥ 25) á Norðurlöndunum 2024 en 2014. Hlutfall fullorðinna með offitu (BMI > 30) á Norðurlöndunum fór úr 15% árið 2014 í 20% árið 2024. Á Íslandi fór það úr 21% árið 2014 í 28% árið 2024. Árið 2024 var hlutfall offitu 24% í Finnlandi, 18% í Danmörku, 16% í Noregi og 15% í Svíþjóð.
Hlutfall barna með offitu á Norðurlöndunum var 3% árið 2014 og fór í 4% árið 2024. Árið 2024 var hlutfall barna með offitu um 6% hér á landi, líkt og í Danmörku (5,5%) og Finnlandi (5%) en það var um 2% í Noregi og Svíþjóð.
Áfengis- og tóbaksnotkun
Áfengisnotkun var nánast óbreytt í heildina á Norðurlöndunum frá 2014-2024, eða að meðaltali 1-2 skipti/viku. Um 37% aðspurðra Norðurlandabúa höfðu drukkið sig ölvaða á síðastliðnum 30 dögum.
Það dró úr daglegum reykingum á öllum Norðurlöndunum á milli áranna 2014 og 2024, en hlutfallið fór úr um 16% í 10%. Hlutfall daglegra reykinga á Íslandi var 8,3% árið 2024 en á sama tíma jókst notkun munntóbaks og nikótínpúða. Notkun á rafrettum var tiltölulega lítil í heildina en meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.
Frekari upplýsingar
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri næringar
holmfridur.thorgeirsdottir@landlaeknir.is