Endurskoðaðar ráðleggingar um mataræði
12. mars 2025
Embætti landlæknis birti í dag endurskoðaða útgáfu opinberra ráðlegginga um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri.


Faghópur á vegum embættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum. Þessi endurskoðun fylgir ávallt í kjölfar uppfærslu á Norrænum næringarráðleggingum þar sem hópur sérfræðinga fer kerfisbundið yfir rannsóknir á sviði næringar og heilsu.
Mikilvægt er fyrir almenning að hafa aðgang að traustum upplýsingum um mataræði, enda hefur það sem við borðum og drekkum mikil áhrif á heilsuna. Með því að fylgja ráðleggingunum er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla þannig að góðri heilsu og vellíðan.
Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára. Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.
Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:
Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt - takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
Minnkum saltið – notum fjölbreytt krydd
Veljum vatn umfram aðra drykki
Forðumst áfengi - engin örugg mörk eru til
Tökum D-vítamín sem bætiefni daglega
Jóhanna Eyrún Torfadóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringar