Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Yfir þúsund tonn af kjötmjöli

9. desember 2024

Dreifing kjötmjöls á uppgræðusvæðum í Árnes- og Rangárvallasýslum hefur gengið vel á árinu. Dreift hefur verið á alls 736 hektara. Sums staðar hefur birkifræi verið blandað saman við kjötmjölið til að flýta fyrir framvindu.

Kjötmjölsdreifarinn fylltur. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson

Að sögn Garðars Þorfinnssonar, ráðgjafa hjá Landi og skógi á Suðurlandi, hefur eitt af verkefnum haustsins hjá Landi og skógi hefur verið dreifa kjötmjöli á uppgræðslusvæði í Árnes- og Rangárvallasýslu. Hann segir að lögð hafi verið áhersla á þrennt við þessa dreifingu:

  • Að bera á svæði þar sem gróður er ekki orðinn sjálfbær.

  • Að bera á þar sem birki hefur verið gróðursett í uppgræðslur. Víða var mikilvægt að fylgja gróðursetningunni eftir með áburðargjöf enda yfirleitt verið að vinna á erfiðum svæðum.

  • Að búa svæði undir gróðursetningu á birki.

Kjötmjölsdreifarinn að verki. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson

Garðar segir að kjötmöl hafi reynst vel sem áburðargjafi í verkefnum Lands og skógar á undanförnum árum. Magnið sem dreift er sé um 1,4 tonn á hektara. Það jafngildi um þriggja ára dreifingu tilbúins áburðar, ef miðað sé við að efnainnihaldið sé 25 prósent nitur (N) og 2,6 prósent fosfór (5% P2O5). Niturinnihald kjötmjölsins er um níu prósent sem þýðir að með aðferðinni sem hér hefur verið lýst fær hver hektari 126 kíló af nitri. Meðal kosta kjötmjölsins er að áburðaráhrifin endast lengur en af tilbúnum áburði og kjötmjölið gagnast vel við að myndast skán sem gróður getur spjarað sig af stað í.

Í haust hefur verið dreift kjötmjöli á um 566 hektara, segir Garðar, sem þýðir að magnið er um 820 tonn. Til viðbótar við þau tæpu 250 tonn sem dreift var á um 170 hektara í vor hefur því samtals verið dreift kjötmjöli á um 736 hektara í ár og magnið ríflega þúsund tonn, nánar tiltekið 1.067 tonn. Í nokkrum tilfellum var birkifræi blandað saman við kjötmjölið og dreift yfir svæðið til að flýta fyrir framvindu.

Kjötmjölsdreifing á örfoka landi. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson