Votlendismálin rædd
28. febrúar 2024
Staða votlendis er ekki nógu góð og við höfum ekki hlúð nægilega vel að mýrunum okkar, segir Ágústa Helgadóttir, verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi. Hún segir útlit fyrir að árið 2025 verði búið að endurheimta votlendi á um þúsund hekturum lands.
Morgunvaktin á Rás 1 hefur fjallað um votlendismálin undanfarna daga og í gær, þriðjudaginn 27. febrúar, fræddi Ágústa hlustendur um stöðu þessara mála á Íslandi í spjalli við Þórunni Elísabetu Bogadóttur útvarpskonu.
Ágústa rekur í viðtalinu hvernig framræsla mýra til jarðræktar var styrkt um miðbik síðustu aldar og náði hámarki um 1970. Mun meira hafi á þessum árum verið ræst fram en síðan hefur verið nýtt til jarðræktar en sumt hafi verið nýtt til beitar búpenings. Nú séu mikil tækifæri til að breyta landi aftur í votlendi á mörgum þessara svæða, til dæmis hjá landeigendum sem ekki stunda búskap. Víða séu svæði sem ekki hafa verið jarðunnin. Þar sé mestöll votlendisflóran enn til staðar og auðvelt að endurheimta votlendið.
Ferlinu sem fer í gang við framræslu á votlendi lýsir Ágústa, hvað gerist þegar súrefni kemst að því mikla kolefni sem býr í jarðvegi mýranna þannig að rotnun hefst og kolefnið losnar. Þetta ferli segir hún auðvelt að stöðva fljótt með því að endurheimta votlendið. Svæðin sem tekin eru til endurheimtar votlendis séu valin af kostgæfni með tilliti til ýmissa þátta svo sem nálægðar við sjó, fjarlægðar frá gosbeltinu, frjósemi vistkerfanna, hvort um stór opin svæði er að ræða, hversu mikið verndargildið er fyrir fuglalíf og fleira. Reynt sé í þessu starfi að stækka net verndarsvæða á landinu og þar nefnir hún til dæmis stór svæði sem eru á náttúruminjaskrá á Suðurlandi.
Ágústa Helgadóttir, líffræðingur og verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi.
Ágústa segir að framan af hafi gengið mjög vel að fá landeigendur inn í votlendisverkefni en síður upp á síðkastið en mörg verkefni séu nú í farvatninu. Hún tíundar þann stuðning og ráðgjöf sem sé í boði hjá Landi og skógi til endurheimtar votlendis. Metið er í hverju tilfelli hvort verkefni séu styrkhæf áður en hægt er að ráðast í framkvæmdir. Þrátt fyrir þann stuðning sem eru í boði segir hún að svo virðist sem hvatarnir séu ekki nógu miklir og þar þurfi að gera betur. Ef setja á meiri kraft í endurheimt votlendis þurfi að sýna þessum málum meiri áhuga, hvetja landeigendur til að skoða sín lönd og huga að því hvort og hvaða tækifæri séu þar til staðar til endurheimtar, hvort sem það séu stór eða lítil svæði. Verðmætin liggi í hinni líffræðilegu fjölbreytni, plöntunum, skordýrunum og heilbrigðum búsvæðum sem geti tekist á við áföll.
Farið var yfir fleira í viðtalinu við Ágústu svo sem sérstakan áhuga hennar á barnamosum eða Sphagnum-mosum í mýrunum og fleira. Þúfur úr slíkum mosum rýrna við framræsluna en taka mikinn vaxtarkipp þegar landið blotnar á ný. Ágústa áætlar að votlendi verði endurheimt á yfir 150 hekturum næstu tvö árin og árið 2025 verði búið að ná þúsund hekturum frá því að Landgræðslan tók við málaflokknum árið 2016.
Viðtalið við Ágústu Helgadóttur á Morgunvaktinni (hefst á 01.21.25 á upptökunni)
Barnamosi (Sphagnum) frá Mýrum í Borgarfirði sem nýtur góðs af hækkun grunnvatnsstöðu, hefur þroskað margar dökkar gróhirslur. Ljósmynd: Ágústa Helgadóttir.
Auk viðtalsins við Ágústu fjallaði Morgunvaktin um votlendismál föstudaginn 23. febrúar. Aron Alexander Þorvarðarson sagði þar frá tengslum stærðar votlendisbletta við þéttleika og fjölbreytileika fugla. Niðurstöður hans benda til að ekki sé síður ástæða til að vernda lítil votlendissvæði en hin stærri.
Enn fremur skrifaði Gerður Stefánsdóttir hjá Landi og skógi grein um mýrina, hina lágstemmdu auðlind í annað tölublað Bændablaðsins á þessu ári. Sjá eftirfarandi hlekki:
Viðtalið við Aron Alexander (hefst 1.27.00)
Grein Gerðar Stefánsdóttur, Mýrin - Hin lágstemmda auðlind (bls. 38)