Vonast til að fræakrarnir gefi uppskeru tvisvar
10. október 2024
Uppskerustörfum er lokið á túnvinguls- og melgresisfræi á vegum Lands og skógar þetta árið. Uppskera af túnvingli er í góðu meðallagi en heldur lítið fékkst af melgresisfræi. Tilraunir eru í gangi með áburðargjöf og þéttleika sáningar á túnvingulsökrum í Gunnarsholti sem hófust í fyrra og lýkur næsta haust. Þar er meðal annars leitað leiða til að akrarnir geti gefið uppskeru tvö ár í röð en ekki bara einu sinni.
Túnvingull var uppskorinn á alls um þrjátíu hekturum að þessu sinni. Að sögn Árna Eiríkssonar, hópstjóra í Gunnarsholti, sem hefur umsjón með verkinu, er uppskeran í góðu meðallagi. Aftur á móti varð heldur lítil uppskera af melgresisfræi og melur var eingöngu uppskorinn á Mýrdalssandi sem tók nokkra daga. Árni segir að ax sé ekki mjög stórt á melgresinu þetta árið og auk þess hafi melgresið að hluta tapast í illviðri. Algengast sé að fyrst sé skorið melgresi í Landeyjum, síðan á Mýrdalssandi og stöku sinnum endað á að uppskera mel í Þingeyjarsýslum. Lokatölur um uppskeruna fást ekki fyrr en fræ hefur verið hreinsað þegar kemur fram á veturinn. Þá fyrst er hægt að vigta það og sjá endanlegt magn og gæði, segir Árni.
Áhrif mismunandi þéttleika sáninga rannsökuð
Við frærækt á grasfræi þarf meðal annars að huga vel að því að ef þröngt verður um plönturnar, blómgast þær minna og þar af leiðandi verður fræmyndun minni. Af þessum sökum er víða í öðrum löndum notast við gisnari sáningar sem lengja líf akranna. Prófanir á þessari aðferð hafa verið í gangi á vegum Lands og skógar, segir Magnús H. Jóhannsson, sérfræðingur og teymisstjóri á sviði rannsókna og þróunar.
Stöðugt er unnið að aukinni þekkingu og tækni við fræframleiðsluna, meðal annars með tilraunum. Í maí 2023 var sett upp stór tilraun í frærækt túnvinguls þar sem skoðuð eru áhrif mismunandi þéttleika sáninga, auk mismunandi áburðarmagns við sáningu og á frætökuári. Á helmingi svæðisins var fræinu sáð þétt en gisið á hinum helmingnum með því að loka fyrir aðra hverja sáðpípu í sáðvél. Áburðarskammtar voru 260 og 310 kíló á hektara við sáningu en 260, 310, 360 og 410 kíló á hektara á frætökuári. Hver meðferðarreitur á tilraunasvæðinu er 7x40 metrar að flatarmáli og hver meðferð endurtekin fjórum sinnum. Að neðan getur að líta annars vegar akur með gisinni sáningu og hins vegar með þéttri.
Fyrri landnotkun á ökrunum spilar inn í hvernig ökrunum reiðir af og þar er að ýmsu að hyggja, segir Magnús. Skiptiræktun, þar sem t.d. bygg er ræktað í nokkur ár, geri akrana betri til fræræktar. Þar fyrir utan skipti jarðvegsgerð og næringarástand líka máli. Þetta séu þættir sem horfa þurfi til við val á landi til fræræktar, bæði með tilliti til mögulegs uppskerumagns og hreinleika fræsins.
Vonast eftir aukinni hagkvæmni
Magnús segir að mögulegt gagn af þessum rannsóknum sé meðal annars að sjá hvort og hvernig lengja megi líf fræakranna. Upp og ofan sé hvort uppskera næst af ökrunum tvö ár í röð en oftast fáist bara ein uppskera. Þegar tvisvar næst uppskera af sama svæði sparist miklir peningar og vinna. Hann segir að erlendis sé sáð miklu gisnar en venjan hefur verið hérlendis.
Ofangreindar tilraunir með frærækt landgræðslugrasa eru áhugaverðar út frá hagkvæmnisjónarmiðum í ræktun og snerta ekki sjálft uppgræðslustarfið beint heldur framleiðsluna á fræinu sem er notað við það starf. Áburðargjöfin verður endurtekin í tilraunareitunum næsta vor og aftur skorið upp næsta haust. Magnús segir að í lok næsta árs megi vænta skýrari myndar af þessum þáttum sem eru til rannsóknar í fræökrum Lands og skógar í Gunnarsholti.
Ljósmyndir: Magnús H. Jóhannsson