Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Vöktun íslenskra skóga stærsta verkefnið

21. maí 2024

Af þeim verkefnum sem sinnt er á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi er viðamest að halda utan um úttekt á íslenskum skógum. Ný rannsókn er að hefjast á vistkerfi blandaðra skóga með áherslu á líffjölbreytni.

Hjördís Jónsdóttir skógfræðingur hjá Landi og skógi við úttekt í ungum lerkiskógi við Eyjafjörð. Ljósmynd: Björn Traustason

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Steinunnar Ásmundsdóttur blaðamanns við Brynjar Skúlason, skógerfðafræðing og sviðstjóra rannsóknar og þróunar hjá Landi og skógi. Viðtalið birtist í Bændablaðinu 24. apríl.

Farið er yfir þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að á sviðinu. Þeim er í fyrsta lagi skipt í hagnýt rannsóknarverkefni til að tryggja góðan og hagkvæman árangur í verklegum framkvæmdum við landgræðslu og skógrækt. Í öðru lagi eru grunnrannsóknir til að byggja upp almenna þekkingu sem getur nýst síðar sem hagnýt þekking. Í þriðja lagi eru svo vöktunarverkefni sem gjarnan eru hluti af upplýsingagjöf til stjórnvalda. Þar er fylgst með breytingum, til dæmis breytingum á vistkerfum sem bregðast þarf við svo sem þegar upp koma nýir skaðvaldar sem valdið geta skemmdum á gróðri.

Fram kemur í spjallinu við Brynjar að Íslensk skógarúttekt sé stærsta einstaka verkefnið á sviðinu. Þar er metinn vöxtur og viðgangur íslenskra skóga og þar með framlag þeirra til kolefnisbindingar ásamt útbreiðslu skóganna og vexti þeirra með meiru. Þarna fást tölur í loftslagsbókhald landsins.

Brynjar nefnir Skóglendisvefsjá Lands og skógar þar sem skoða má útbreiðslu bæði náttúrlegra og ræktaðra skóga landsins og líka Skógarkolefnisreikni þar sem áætla má kolefnisbindingu skóga vítt og breitt um landið eftir ræktunarstað, landgæðum og trjátegundum.

Farið er yfir ýmis fleiri verkefni svo sem aukna áherslu á bætta nýtingu á lífrænum úrgangi og rannsóknir sem því tengjast og eru fram undan. Einnig aukin gæði skógarplantna í samstarfi við plötnuframleiðendur, rannsóknir á vöktun á skaðvöldum, trjákynbætur, frærækt og fleira. Þá kemur fram að nýhafið sé umfangsmikið rannsóknarverkefni á vistkerfi skóga sem innihalda mismunandi trjátegundir og eru á mismunandi aldri með áherslu á líffjölbreytni. Brynjar segir að aukin áhersla verði lögð á líffjölbreytni í tengslum við ræktun og endurheimt vistkerfa í framtíðinni og rannsókarstarf mni taka mið af því.

Í lok viðtalsins segir Brynjar að sameiningin í Land og skóg gefi tækifæri til naflaskoðunar til að sjá hvort rétt sé forgangsraðað í rannsóknum. Allar fyrirspurnir og ábendingar séu vel þegnar og hugmyndir um nýja samstarfsaðila velkomnar.