Vöktum landið saman!
22. maí 2024
Land og skógur auglýsir eftir áhugasömu fólki sem vill taka þátt í vöktunarverkefninu Landvöktun - lykillinn að betra landi. Þátttakendur leggja þar með lóð á vogarskálarnar við söfnun gagna sem notuð eru við mat á ástandi gróðurs og jarðvegs á öllu landinu.
Vöktunarverkefnið Landvöktun - lykillinn að betra landi er hluti af Grólind, verkefni sem ætlað er að gera með reglubundnum hætti heildarmat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda
landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu þessara auðlinda.
Mælingarnar sem þátttakendur safna verða notaðar við ástandsmat á stöðu gróðurs og jarðvegs á öllu landinu. Gögnin eru almannaeign og því geta þátttakendur notað þau að vild. Þær aðferðir sem notaðar eru við vöktunina eru í stöðugri endurskoðun og þátttakendur geta haft mikil áhrif á hvað mælt er.
Land og skógur hvetur allt áhugasamt fólk til að taka þátt í landvöktuninni, svo sem landeigendur, bændur og ýmsa hópa, stóra og smáa. Því fleiri sem stökkva á vagninn, því betur gengur Grólindarverkefnið og þar með fást meiri og betri gögn til að taka upplýstar ákvarðanir í sameiningu um landnýtingu.
Vefur Grólindar, grolind.is